Lóan kom einum degi fyrr í fyrra

Lóan er komin, á svipuðum tíma og síðustu ár.
Lóan er komin, á svipuðum tíma og síðustu ár. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lóan er komin, á nokkuð svipuðum tíma og síðustu ár. Í fyrra var greint frá fyrstu lóunum 26. mars en 18. mars árið 2015. Meðalkomutími heiðlóunnar var 23. mars árin 1988 til 2014 en metið er frá árinu 2012 þegar fyrsti vorboðinn sást 12. mars.

Í þessari upptalningu eru ekki taldar með þær lóur sem eru á landinu á veturna líka en þær voru áberandi margar í ár, líklega vegna hlýnandi loftslags.

Til að mynda var sagt var frá því í Morgunblaðinu 21. desember síðastliðinn að 280 lóur hefðu sést við Bakkavík á Seltjarnarnesi. Rætt var við Kristin Hauk Skarphéðinsson, dýravistfræðing og sviðsstjóra hjá Náttúrufræðistofnun, sem taldi það einsdæmi að svona margar lóur sjáist nokkrum dögum fyrir jól.

Lóur á Seltjarnarnesi í lok nóvember.
Lóur á Seltjarnarnesi í lok nóvember. Ljósmynd/Stefán Áki Ragnarsson

Í samtali við mbl.is segir Stefán Áki Ragnarsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, sem er mikill áhugamaður um fuglinn, þær lóur sem héldu til á landinu í vetur aðallega vera á suðvesturhorninu, til að mynda á Seltjarnarnesi og Reykjanesi.

Það er því hægt að gera ráð fyrir því að lóurnar sem sáust á Einarslund á Höfn í morgun hafi verið að koma að utan og því fyrstu vorboðarnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert