Styðja ekki „tilraunir á íbúum“

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

„Staðan er sú að þeir virðast ekki hafa staðið við loforð sín um að menga ekki umhverfið og þolinmæði íbúa er brostin og bæjarfulltrúar hafa fengið nóg,“ segir Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar um mengun frá verksmiðju United Silicon.

Bæjaryfirvöld hafa farið þess á leit við Umhverfisstofnun að verksmiðju United Silicon verði lokað þar til fyrirtækið hefur gert úrbætur til að koma í veg fyrir umhverfismengun.

Í bréfi sem Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sendi Umhverfisstofnun í gær segir m.a.:

„Ég mun ekki styðja það að gerðar verði tilraunir á íbúum í heilt ár til þess að fá úr því skorið hvort verið sé að úða hættulegum efnum yfir þá. Það er alveg ljóst að þær upplýsingar sem lagðar voru fram til grundvallar starfsleyfi standast alls ekki og held að það sé eðlileg krafa að rekstur verksmiðjunnar verði stöðvaður á meðan farið er í yfir þetta.“

Þá óskaði hann eftir því að fulltrúar Umhverfisstofnunar mættu á fund bæjarráðs á fimmtudag og hefur stofnunin þegar svarað því játandi.

Mat á umhverfisáhrifum gerði ráð fyrir að magn arsen, eða arseníks, í andrúmsloftinu færi mest í 0,32 nanógrömm á rúmmetra en RÚV greindi frá því í gær að það hefði mælst tuttugufalt meira, eða sex til sjö nanógrömm. Þá hafði RÚV eftir dósent í eiturefnafræðum að full ástæða væri til að hafa áhyggjur þar sem arseník væri krabbameinsvaldandi.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.

Að sögn Friðjóns funduðu bæjaryfirvöld síðast með forsvarsmönnum United Silicon fyrir nokkrum vikum.

„Á þeim fundi var farið yfir kvartanir íbúa Reykjanesbæjar í smáatriðum; fjölda þeirra og hvað það væri sem væri að trufla fólk. Og hvað þetta þýddi. Og þeir viðurkenndu á þeim fundi að þetta hefði ekki gengið eins vel og þeir ætluðu en það væri verið að skoða hönnun verksmiðjunnar og lagfæringar og annað slíkt,“ segir Friðjón.

Á fundinum ítrekuðu fulltrúar bæjarins að þolinmæðin væri á þrotum en lítið virðist hafa farið fyrir úrbótum.

„Undanfarið hefur lyktin verið meiri og eftir að þetta kom í fjölmiðlum, hvaða efni þetta væru hugsanlega samfara þessu, arsen og hvað þetta nú  heitir allt saman, þá höfðum við samband við Umhverfisstofnun á föstudaginn.“

Friðjón segir kurr í fólki. Hávær og góður hópur íbúa hafi haldið málinu á lofti, t.d. á samskiptamiðlum en það sé misjafnt hversu mikið menn finna fyrir menguninni.

„Margir íbúar finna ekki fyrir þessu því þetta fer dálítið eftir vindáttinni í hvaða hverfum þetta er. Ég bý til að mynda í miðbænum og ég er búinn að finna fyrir þessu alla helgina. Og asmasjúklingar finna fyrir þessu. Og það þýðir ekkert fyrir einhverja verksmiðju að segja að þeir hafi ekki verið að framleiða eða það hafi ekki verið lykt hjá þeim. Þeir verða bara að viðurkenna að það eru mistök í gangi og þannig er staðan.“

Friðjón ítrekar að þrátt fyrir að það sé sveitarfélagið sem úthlutar lóðum til fyrirtækja, sé það ekki á forræði þess að hafa eftirlit með starfsemi þeirra né grípa til aðgerða. Það sé hlutverk eftirlitsstofnana.

„Valdið liggur algjörlega þar. Við höfum ekkert vald í þessu máli annað en að koma með ábendingar og óskir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert