Draumurinn um svefn

Erla segir svefninn trúlega alltaf verða ráðgátu að einhverju leyti.
Erla segir svefninn trúlega alltaf verða ráðgátu að einhverju leyti. mbl.is/Árni Sæberg

„Segja má að við fæðumst með tvöfaldan ríkisborgararétt, í landi svefns og landi vöku. Hvort sem okkur líkar betur eða verr dveljum við flest um það bil helming æskuáranna og þriðjung fullorðinsáranna í landi svefnsins og ekki að ástæðulausu,“ skrifar dr. Erla Björnsdóttir í formála nýútkominnar bókar sinnar, Svefn. Sjálf er hún vakin og sofin í báðum löndum.

Þegar Erla Björnsdóttir sálfræðingur hóf að rannsaka svefn í doktorsnámi sínu við Háskóla Íslands fyrir átta árum undraðist hún að ekki var til aðgengileg bók á íslensku um þetta lífsnauðsynlega fyrirbæri. Á sama tíma voru bækur um hinar grunnstoðir góðrar heilsu; næringu og hreyfingu, á hverju strái. Erlu dreymdi um að gefa út bók um svefn. „Mér fannst svefninn svo spennandi viðfangsefni að ég var ákveðin í að láta drauminn rætast einn góðan veðurdag þegar ég vissi meira,“ segir hún. Sá dagur er runninn upp. Umfjöllunarefnið er margbreytilegt og flókið, bókartitilinn einfaldur; Svefn.

Og, nei, Erla veit ekki allt um svefn, slíkt telur hún enda ekki mögulegt. Svefninn sé og verði trúlega alltaf að nokkru leyti ráðgáta. „Ég veit samt býsna margt og læri meira og meira á hverjum degi,“ segir hún.

Bókin skiptist í tíu kafla, sem greinast í mismarga undirkafla, og fjalla m.a. um svefnþörf, líkamsklukku, svefntruflanir, langvarandi svefnleysi og svefn barna, unglinga og kvenna. Auk fróðleiks eru í henni góð ráð við svefnvandamálum og -truflunum af ýmsu tagi og mörgum spurningum svarað sem efalítið brenna á fólki á einhverjum tímapunkti. Fáir sofa eins og englar allt sitt æviskeið og meira að segja höfundurinn hefur átt sínar andvökunætur. „Ég á fjögur börn og veit alveg hvaða áhrif svefnleysi getur haft,“ segir hún til skýringar og nefnir þau helstu:

„Skert orka, einbeiting og minni. Maður verður latari en ella og fer að sækja í óholla fæðu eins og sykur og einföld kolvetni í viðleitni til að keyra upp orkuna. Ef svefnleysið er langvarandi er hætta á ýmsum heilsufarslegum kvillum, bæði líkamlegum og andlegum, til dæmis kvíða og depurð. Bólguboðefni fara að hlaðast upp í líkamanum, sem auka líkur á hjarta- og kransæðasjúkdómum, svo fátt eitt sé talið.“

Meðalsvefnþörf fullorðinna er um sjö og hálf klukkustund.
Meðalsvefnþörf fullorðinna er um sjö og hálf klukkustund.


Er svefn fyrir aumingja?

Erla segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir að enginn geti stytt sér leið, allir borgi sinn skatt ef þeir klípi af svefninum. „Við þurfum reglulegan svefn. Ef við ætlum að fara í ræktina klukkan sex verðum við að fara þeim mun fyrr að sofa. Margir falla í þann pytt að sofa of lítið á virkum dögum og ætla að bæta sér það upp með því að sofa mikið um helgar. Slíkt er bara ávísun á svefnvandamál.“

Meðalsvefnþörf fullorðinna er kringum sjö og hálf klukkustund. Almennt virðast konur þurfa örlítið meiri svefn og eiga frekar við svefnleysi að stríða en karlar. „Þar spila inn í streituvaldandi þættir eins og meðganga, brjóstagjöf, tíðir, tíðahvörf og hormónabreytingar. Ekki má þó oftúlka niðurstöður rannsókna því þær byggjast á meðaltölum, allar konur sofa vitaskuld ekki meira en allir karlar. Auk þess er svefnmynstrið svolítið mismunandi, eldra fólk er oft meiri morgunhanar en þeir yngri frekar nátthrafnar,“ segir Erla, sem er algjörlega ósammála fleygum orðum Margaret Thatcher um að svefn sé fyrir aumingja.

„Flest þekkjum við sögur af fólki sem nær langt í lífinu og stærir sig af að þurfa sáralítinn svefn. Fólk ætti frekar að vera stolt af ná fullum svefni. Frásagnir af lítilli svefnþörf eru oft orðum auknar. Þótt Winston Churchill svæfi lítið á nóttunni var vitað að hann lagði sig eftir hádegi og sofnaði í tíma og ótíma. Raunin er sú að afar fáir komast af með fárra klukkutíma svefn á sólarhring.“

Erla hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi.
Erla hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi.


Svefnvenjur landans eru hins vegar svolítið sér á parti. Í könnun Lýðheilsustofnunar fyrir nokkrum árum kvaðst tæplega fjórðungur Íslendinga sofa aðeins sex tíma eða skemur á sólarhring.

Innri klukkan og veggklukkan

„Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar fara um klukkustund seinna að sofa en fólk í löndunum í kringum okkur, þótt vinnudagurinn byrji á svipuðum tíma. Mig grunar að við séum á röngum tíma. Eftir að hætt var að breyta klukkunni tvisvar á ári, vor og haust, erum við föst í sumartíma, sem að mínu mati er skekkja miðað við stöðu landsins. Birtan stillir okkar innri klukku, ekki klukkan á veggnum. Öfgarnar – þetta mikla myrkur á veturna og birtan allan sólarhringinn á sumrin, geta valdið svefntruflunum. Margir finna fyrir drunga og þreytu og eiga erfitt með að vakna í svartasta skammdeginu eða geta ekki sofnað í birtunni á sumrin,“ segir Erla og líkir ástandinu við króníska flugþreytu. Hún hefði ekkert á móti því að klukkunni væri seinkað um klukkutíma.

Könnun frá í fyrra leiddi í ljós að nemendur í 10. bekk sofa yfirleitt ekki meira en sex tíma á virkum dögum. Erla segir krakka á þessum aldri þurfa níu til tíu tíma nætursvefn. Hún skellir skuldinni að hluta á nýjustu tæki og tól.

„Unglingar eru stöðugt í snjallsímunum sínum, allt er svo spennandi og þeir vilja ekki missa af neinu. Eftir að þeir bjóða pabba og mömmu góða nótt fara þeir með símana inn í herbergið sitt undir því yfirskyni að þeir séu vekjaraklukka. Síðan hanga þeir á samfélagsmiðlum, netinu eða í tölvuleikjum fram undir morgun. Auk svefnleysis hefur viðvarandi ljósáreiti af þessu tagi hamlandi áhrif á melatónínframleiðslu líkamans. Bæði börn og fullorðnir þurfa frí frá þessum áreitum. Við þurfum ekki að vera tengd umheiminum allan sólarhringinn.“

Ofneysla svefnlyfja

Erlu finnst sérstakt áhyggjuefni að Íslendingar taka margfalt meira af svefnlyfjum en þekkist annars staðar í heiminum. „Svefnlyf virka í skamman tíma, um það bil fjórar vikur. Fólk er fljótt að mynda þol fyrir þessum lyfjum og þótt áhrifin séu því bara sálræn getur það lent í vítahring. Langtímanotkun er ekki aðeins tilgangslaus heldur líka skaðleg heilsunni,“ segir Erla og nefnir slæm áhrif lyfjanna á minni, hugsun og jafnvægi. „Þar af leiðandi eru þau sérstaklega slæm fyrir eldra fólk með tilliti til þess að detta og meiða sig, jafnvel beinbrotna,“ bætir hún við.

Helstu áhættuþættir langvarandi svefnleysis eru mikið álag og áhyggjur, streita, óreglulegar svefnvenjur, ýmsar breytingar í lífinu, svo sem flutningar, nýtt starf og barneignir. Og ekki síst lífsstíllinn. „Það getur verið svo ótal margt sem hrindir af stað svefnvanda. Við drekkum of mikið kaffi, erum of mikið í tölvunni og þar fram eftir götunum.“

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart í doktorsrannsókninni segist hún hafa uppgötvað að svefnleysi og kæfisvefn séu nátengdir sjúkdómar. Enn fremur að birtingarmynd svefnleysis hjá kæfisvefnssjúklingum sé mismunandi og hafi ólík áhrif á lífsgæði þeirra. „Þetta hljómar kannski bara spennandi fyrir „svefnnörda“ eins og mig en getur haft mikla þýðingu í áframhaldandi rannsóknum. Ef okkur tekst að lækna svefnleysi hjá kæfisvefnssjúklingum verður vonandi auðveldara að meðhöndla kæfisvefninn, sem er bæði algengur og vangreindur sjúkdómur,“ útskýrir hún. Það er hennar draumur.

Rannsóknir og hugræn atferlismeðferð

Erla Björnsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1982. Hún er gift Hálfdani Steinþórssyni og eiga þau fjóra syni.

Erla lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2007, kandídatsprófi frá Háskólanum í Árósum 2009 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá HÍ 2015. Í doktorsnámi sínu rannsakaði hún svefnleysi og andlega líðan og lífsgæði sjúklinga með kæfisvefn.

Erla hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi og vinnur að rannsóknum á því sviði ásamt samstarfsmönnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur birt fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum og einnig skrifað um svefn á innlendum vettvangi.

Erla rekur eigin stofu, Sálfræðiráðgjöfina, vinnur sem nýdoktor í HÍ og að svefnrannsóknum á Landspítalanum. Hún hefur umsjón með vefsíðunni www.betrisvefn.is, þar sem hún er í beinu sambandi við notendur síðunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert