Flestir geta tengt við unglingana í SKAM

Fjögurra daga SKAM-hátíð fer fram í Norræna húsinu um helgina.
Fjögurra daga SKAM-hátíð fer fram í Norræna húsinu um helgina.

Frásögnin í norsku unglingaþáttunum SKAM er hrein og bein án þess að ofbjóða og flestir geta tengt við sögurnar og það sem persónur þáttanna eru að glíma við. Þá er SKAM einstakur þáttur þar sem aðdáendurnir eru á öllum aldri, þrátt fyrir að hann segi frá unglingum.

Þetta segir markaðsstjóri Norræna hússins í samtali við mbl.is en síðar í vikunni hefst þar fjögurra daga SKAM-hátíð. Fyrr á árinu kallaði Norræna húsið eftir aðdáendum SKAM á aldrinum 14-17 ára til þess að stofna svokallað „kosegrubba“ sem er skírskotun í hóp sem stofnaður er af norsku unglinunum í SKAM.

„16 stelpur skipa kosegrubba og fyrsti viðburður hátíðarinnar er algjörlega skipulagður af þeim, frá a til ö,“ segir Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir, markaðs- og viðburðarstjóri Norræna hússins í samtali við mbl.is.

Hópurinn hefur hist tvisvar til þess að undirbúa hátíðina en viðburðurinn á fimmtudaginn er fyrir aðdáendur þáttanna á aldrinum 14 til 17 ára. Þar verður horft á vel valin myndbrot úr SKAM, keppt í spurningaleik og svo verður haldið diskótek með Dj Sunnu Ben sem leikur tónlist úr þáttunum en dagskráin hefst klukkan 19.

16 stelpur á aldrinum 14 til 17 ára mynda Kosegrubbe …
16 stelpur á aldrinum 14 til 17 ára mynda Kosegrubbe Norræna hússins. Ljósmynd/Norræna húsið

Á föstudaginn verður stemningin önnur með pallborðsumræðum og Happy hour fyrir eldri áhorfendahóp SKAM einnig verður horft á klippur og farið í spurningaleik. Dagskráin hefst klukkan 17.

„Við fáum til okkar mikla aðdáendur og sérfræðinga,“ segir Kristbjörg en í pallborðsumræðunum taka þátt þau Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur RÚV, Anna Gyða Sigurgísladóttir, dagskrárgerðarmaður á RÚV, Nína Richter, sjónvarpsgagnrýnir og dagskrágerðarmaður á RÚV, Stella Soffía Jóhannesdóttir, verkefnastjóri útgáfu hjá Forlaginu og ritari Samfylkingarinnar, og Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson.

Félagar Kosegrubbe skreyta rýmið í Norræna húsinu þar sem SKAM-hátíðin …
Félagar Kosegrubbe skreyta rýmið í Norræna húsinu þar sem SKAM-hátíðin fer fram. Ljósmynd/Norræna húsið

Ber virðingu fyrir unglingamenningu

Með vinsældum SKAM hefur áhugi á norsku vaxið að sögn Kristbjargar og því var ekki úr vegi að fá málfarsráðunaut RÚV til að taka þátt.

„Við ætlum til dæmis að ræða áhrif SKAM á tungumálið og slangur og erum með ýmsar skemmtilegar hugmyndir. Þetta er áhugavert því við erum venjulega undir áhrifum enskunnar en nú hefur áhugi á norsku vaxið vegna þáttanna,“ útskýrir Kristbjörg.

En hvað er það sem veldur þessum mikla áhuga á SKAM?

Kristbjörg segir að það sé eitt þeirra viðfangsefna sem verða rædd á föstudaginn.

„Að mínu mati er það til dæmis hversu vel unglingamenning er tækluð í þáttunum og virðing borin fyrir henni. Frásögnin er hrein og bein án þess að ofbjóða og flestir geta tengt við sögurnar og það sem krakkarnir eru að glíma við. Það er bæði hægt að endurupplifa unglingsárin, endurnjóta þeirra en líka endurmelta þau,“ útskýrir Kristbjörg.

Norsku þættirnir SKAM hafa notið gríðarlegra vinsælda.
Norsku þættirnir SKAM hafa notið gríðarlegra vinsælda.

Nýr markhópur með SKAM

Hún segir þennan mikla áhuga unglinga á Norðurlöndunum vegna SKAM eitthvað alveg nýtt. „Norðurlöndin eru auðvitað alveg gríðarlega öflug í sjónvarps- og kvikmyndagerð og eru fyrir löngu búin að slá í gegn á Íslandi með þáttum eins og Forbrydelsen.  En með SKAM kemur nýr markhópur. Hann er líka einstakur vegna þess að aðdáendurnir eru alveg frá 12 ára og upp í 80 ára.“

Miðaverð á viðburðinn fyrir 14-17 ára er 800 krónur og miðasala er á tix.is. Innifalið í miðaverði er aðgangur, gos eða djús og pizzasneið. Kosegrubba stendur hins vegar fyrir sölu á veitingum á staðnum til þess að standa undir kostnaði á hátíðinni. Þá verða SKAM-vörur til sölu á staðnum.

Á föstudeginum verður miðaverð 1.100 krónur en innifalið í miðaverði er aðgangur, vínglas/bjór/óáfengur drykkur og snarl. 

Á laugardaginn og sunnudaginn býður Norræna húsið upp á SKAM-maraþon á stóra skjánum í aðalsal hússins og þar er ókeypis aðgangur en hátíðin er skipulögð í samstarfi við norska sendiráðið í Reykjavík.

Ljósmynd/Norræna húsið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert