Lögreglan braut jafnréttislög

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða lögreglukonu 800.000 krónur í miskabætur. Hún stefndi ríkinu eftir að þrír karlar voru skipaðir í embætti aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrir þremur árum.

Konan krafðist þess að ríkið væri skaðabótaskylt gagnvart henni vegna setningar áðurnefndra karla í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í maí 2014. Einnig krafðist konan þess að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 17. ágúst 2015. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Áður hafði úrskurðarnefnd jafnréttismála komist að því að innanríkisráðuneytið hefði brotið lög þegar karlarnir voru skipaðir í störfin. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þau atriði sem lágu til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda hafi hampað körlum á kostnað kvenna.

Konan hafði umtalsverða stjórnunarreynslu. Hún starfaði sem lögreglukona í rúm fjórtán ár, meðal annars í stjórnunarstöðum.

Segir í niðurstöðu dómsins að krafa stefnanda um miskabætur byggist á því að í ráðningarferlinu hafi verið gert lítið úr allri starfsreynslu stefnanda og menntun og hún beitt mismunun, en í því hafi falist meingerð gegn æru hennar og persónu. 

Að þeirri niðurstöðu var komist í úrskurði kærunefndar jafnréttismála 12. júní 2015 að stefndi hafi, í ráðningarferlinu, mismunað stefnanda á grundvelli kynferðis hennar. Verður að telja slík brot almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir slíkri mismunun verður miska.

Að mati dómsins þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Bera bæturnar dráttarvexti frá 17. ágúst 2015, en þá var liðinn mánuður frá bréfi lögmanns stefnanda til stefnda með boði um að ljúka málinu með greiðslu á fébótum og miskabótum.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.800.000 krónur. 

Dómurinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert