Skallaði starfsmann verslunar

mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir þjófnað og líkamsárás fyrir að hafa stolið matvöru úr verslun í Reykjavík fyrir rúmlega þrjú þúsund krónur og í kjölfarið skallað starfsmann verslunarinnar, sem veitti honum eftirför, í andlitið með þeim afleiðingum að sá hlaut blóðnasir og skrámu á nefi.

Maðurinn neitaði því að hafa skallað starfsmanninn af ásetningi. Höfuð hans hefði þó snert andlit starfsmannsins en hann taldi það hafa gerst í hita leiksins þegar hann reyndi að komast hjá því að vera færður í hendur lögreglu. Fram kemur í dómsorði að maðurinn eigi að baki sakaferil aftur til ársins 1996 sem horfa yrði til við ákvörðun refsingar.

„Síðan þá hefur hann fjórtán sinnum verið dæmdur til refsingar, nú síðast á árinu 2014. Í flestum tilvikum var ákærði sakfelldur fyrir auðgunarbrot en einnig fyrir rán, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlagabrot. Hann hefur ekki áður verið sakfelldur fyrir líkamsárás og er til þess litið. Þá hefur hann játað brot sín að hluta til.“

Þá rauf maðurinn skilorð með broti sínu. Hann var enn fremur dæmdur til þess að greiða um 180 þúsund krónur í sakarkostnað. Þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert