Sóttu of seint um styrkinn

Helgafell í Helgafellssveit, skammt frá Stykkishólmi.
Helgafell í Helgafellssveit, skammt frá Stykkishólmi. mbl.is/Sigurður Bogi

Helgafell við Stykkishólm hefur hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en eigendur jarðarinnar sóttu of seint um styrk úr sjóðnum vegna þessa árs. Landeigendurnir hafa ákveðið að innheimta 400 króna gjald á staðnum og hefur m.a. komið fram í máli þeirra að það sé gert þar sem umsókn um styrk til sjóðsins hafi tvívegis verið hafnað.

Frétt mbl.is: Eru 400 krónur gjöf eða gjald?

Frestur til að sækja um styrki vegna ársins 2017 rann út 25. október í fyrra. Degi síðar barst umsókn vegna Helgafells og var af þeim ástæðum ekki tekið á móti umsókninni, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu. Ári fyrr fékk Helgafell ekki styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Síðast fékk Helgafell styrk úr sjóðnum fyrir árið 2014. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu nam sá styrkur 6.424.765 krónum. Var hann notaður til endurbóta á bílastæðum, breytinga og endurgerðar göngustíga ásamt uppsetningu á salernisaðstöðu og skiltum. Sagði enn fremur vegna styrkveitingarinnar að með því mætti stuðla að öryggi og ánægjulegri upplifun ferðafólks sem leggur leið sína á Helgafell auk þess að fyrirbyggja að ágangur ferðamanna valdi tjóni sem erfitt er að bæta.

Árið 2001 byggði Ferðamálastofa salerni á svæðinu og Vegagerðin bílastæði. 

Albína Thorsteinsson, formaður Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, segir að sjóðurinn úthluti ákveðinni upphæð árlega og verði að forgangsraða í þeim efnum. Helgafell sótti um vegna uppbyggingar á göngustíg og frágangs á bílastæði fyrir árið 2016 en fékk ekki styrk.

„Það náði ekki nógu hárri einkunn til að fara inn en þetta er stigagjöf sem við notum. Önnur verkefni voru brýnni en mér finnst varasamt að tala um synjanir í þessum málum. Það er verið að úthluta ákveðinni upphæð og svo þrýtur féð,“ segir Albína og bætir við að í fyrra hafi mikil áhersla verið lögð á úthlutanir vegna öryggismála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert