Ungur maður í háskaakstri

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Ungur ökumaður mældist aka á 123 kílómetra hraða á klukkustund á Njarðarbraut í Njarðvík þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og þarf að auki að greiða 130.000 króna fjársekt. Þá fær hann þrjá refsipunkta í ökuferilsskrá. Vegna ungs aldurs hans gerði lögreglan á Suðurnesjum barnavernd viðvart um málið.  

Auk ökumannsins unga voru sextán ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Fáeinir til viðbótar óku án ökuréttinda og nokkuð var um stöðvunarskyldubrot.

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af um helgina, vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna, hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Var þetta í þriðja skiptið sem hann var stöðvaður af lögreglu. Annar ökumaður sem ók á grindverk á Suðurstrandarvegi og skemmdi það var einnig grunaður um ölvun og neyslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert