Vill áfram fara um Teigsskóg

Teigsskógur.
Teigsskógur. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Vegagerðin mun nú rýna álit Skipulagsstofnunar og taka saman rök og skýringar við ýmsum ábendingum og álitaefnum sem fram koma í álitinu, og reiknar síðan með að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar samkvæmt leið Þ-H til sveitarstjórnar Reykhólahrepps,“ segir í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni vegna álitsgerðar Skipulagsstofnunar en þar var lagt til að farin yrði önnur leið en leið Þ-H sem Vegagerðin hefur lagt til að farin yrði.

Skipulagsstofnun telur samkvæmt álitsgerðinni að leið D2, sem fylgir núverandi vegi frá Bjarkalundi að Þorskafirði, þverar Þorskafjörð rétt utan við Mjólkárlínu, liggur í jarðgöngum undir Hjallaháls og um botn Djúpafjarðar, fer þaðan í nýju vegstæði yfir Ódrjúgsháls og þverar Gufufjörð skammt utan Hofstaða að Skálanesi, uppfylli best markmið laga um mat á umhverfisáhrifum um að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda.

Frétt mbl.is: Vegurinn liggi ekki um Teigsskóg

Vegagerðin vill hins vegar fara leið Þ-H sem fyrr segir sem fylgir núverandi vegi frá Bjarkalundi að Þorskafirði, þverar Þorskafjörð, liggur svo út með Þorskafirði að vestanverðu og síðan yfir Djúpafjörð og Gufufjörð að Skálanesi. Fram kemur í tilkynningunni að álit Skipulagsstofnunar sé í meginatriðum í samræmi við niðurstöður Vegagerðarinnar á mati umhverfisþátta þótt áherslur séu mismunandi eins og eðlilegt megi teljast í jafnflóknu máli.

„Vegagerðin vísaði fyrst og fremst á efnahagslega þáttinn til að rökstyðja leiðarval, en um 4,0 milljarða króna munur er á áætluðum kostnaði við leið Þ-H og næstódýrustu leiðinni. Með leið D2 sem Skipulagsstofnun og Vegagerðin telja að muni hafa minnst neikvæð umhverfisáhrif, þ.e.a.s. að vegurinn yrði lagður með jarðgöngum undir Hjallaháls, lægi Vestfjarðavegur áfram yfir Ódrjúgsháls meðan leið Þ-H liggur öll á láglendi. Leið Þ-H er auk þess tveimur kílómetrum styttri en leið D2,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert