Fleiri eldri borgarar hafa fjárhagsáhyggjur

Mikilvægar upplýsingar felast í könnuninni.
Mikilvægar upplýsingar felast í könnuninni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fleiri eldri borgarar telja að heilbrigðisþjónustan hafi versnað síðustu ár. Hins vegar eru þeir sem nýta sér hana almennt nokkuð sáttir við aðgengið. Einmanaleiki eldri borgara hefur aukist talsvert milli ára. Tölvunotkun eldri borgara hefur aukist síðustu ár og hlutfall þeirra eldri borgara sem hreyfa sig reglulega er nokkuð svipað milli ára. Þetta er á meðal fjölmargra upplýsinga sem koma fram í könnun á greiningu á högum og líðan aldraðra á Íslandi árið 2016 og var kynnt nýverið.

„Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem þarna koma fram. Hlutirnir eru á réttri leið og þeim miðar áfram,“ segir Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, um niðurstöðu könnunarinnar. Hann segir að vissulega megi margt bæta fyrir eldri borgara en almennt séð hafi þessi hópur fólks það nokkuð gott á Íslandi miðað við önnur lönd.  

Karlar sem eru eldri en 67 ára eru með hærri …
Karlar sem eru eldri en 67 ára eru með hærri ráðstöfunartekjur en konur á sama aldri. mbl.is/Styrmir Kári

45% telja heilbrigðisþjónustuna hafa versnað

Fleiri eldri borgarar nú en áður eða 45% telja heilbrigðisþjónustu hafa versnað sé miðað við sambærilegar mælingar árið 2007 og 1999. Hins vegar voru eldri borgarar þó almennt nokkuð sáttir við aðgengi að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda, en um þrír af hverjum fjórum eða 74% taldi aðgengið mjög eða frekar gott. Það vekur athygli að því verri heilsu sem fólk telur sig hafa því lægra hlutfall telur aðgengi að heilbrigðisþjónustu gott. 

Sá hópur eldri borgara sem upplifir einmanaleika hefur farið stækkandi frá árinu 2007. Árið 2012 voru 13% eldri borgara sem sögðust stundum eða oft hafa verið einmana samanborið við 17% árið 2016. Um tveir af hverjum þremur eldri borgurum eða 65% eru aldrei einmana árið 2016 en árið 2007 var hlutfallið 78%. Mun fleiri upplifa einmanaleika stundum eða oft í hópi þeirra sem eru ógiftir eða ekkjur/ekklar, búa einir, eru tekjulitlir eða hafa slæma heilsu. 

Konur með lægri ráðstöfunartekjur 

Ráðstöfunartekjur einstaklinga voru að jafnaði 258 þúsund krónur á mánuði og tekjur kvenna 24% lægri en ráðstöfunartekjur karla. Meðalráðstöfunartekjur heimila eldri borgara voru 404 þúsund krónur á mánuði og voru ráðstöfunartekjur heimila kvenna töluvert lægri. Ráðstöfunartekjur heimila voru að jafnaði lægri eftir því sem fólk var eldra.

Það fjölgar í þeim hópi sem hefur áhyggjur af fjárhag en um þriðjungur svarenda, um 31%, taldi sig stundum eða oft hafa fjárhagsáhyggjur. Árið 2012 höfðu 26% eldri borgara sömu áhyggjur og 22% árið 2006. Fjárhagsáhyggjur voru í beinu sambandi við aldur, því eldri því færri höfðu áhyggjur. Einnig höfðu þeir heilsuminni mun oftar áhyggjur en þeir sem voru við góða heilsu, en 44% þeirra sem mátu heilsufar sitt mjög eða frekar slæmt höfðu stundum eða oft fjárhagsáhyggjur samanborið við 21% þeirra sem töldu heilsufar sitt mjög gott.

Hreyfing eldri borgara er svipuð milli ára. Mynd úr safni …
Hreyfing eldri borgara er svipuð milli ára. Mynd úr safni af púttmóti heimilismanna á Hrafnistu í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári

Jákvætt viðhorf til eldri borgara

Ríflega helmingur eldri borgara eða 52% telur viðhorf til eldri borgara í samfélaginu vera frekar eða mjög jákvætt.

61% eldri borgara nota tölvu daglega. Karlar nota frekar tölvu og er tölvuvirkni mjög háð aldri. Virkni í notkun netsins hefur aukist örlítið frá árinu 2012.  

73% eldri borgara meta heilsufar sitt frekar eða mjög gott

Um 73% eldri borgara meta heilsufar sitt sem frekar eða mjög gott. Að sama skapi stunda 76% eldri borgara einhverja líkamsrækt 1-2 sinni í viku eða oftar. Þetta hlutfallið er mjög sambærilegt við niðurstöður fyrri kannana. Mikill meirihluti svarenda í öllum aldurshópum stundar reglulega einhverja líkamsrækt eða aðra hreyfingu. Tengslin milli líkamsræktar og heilsufars eru sterk. Yfir 80% þeirra sem telja heilsufar sitt mjög eða frekar gott stunda líkamsrækt a.m.k. vikulega.

Eldri borgurum gert kleift að vera virkir á vinnumarkaði

Einnig var spurt um að lífeyrisaldur yrði hækkaður með hægum skrefum úr 67 árum í 70 ár. Um þriðjungi eða 33% svarenda leist illa á að það yrði gert en 38% leist vel á það. Nær öllum, eða 97% svarenda fannst að auðvelda ætti þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur að vera áfram virkir á vinnumarkaði.

Þetta er í fjórða sinn sem könnunin er lögð fyrir sem var fyrst gert árið 1999, svo 2006, 2012 og í fyrra. Rannsóknin er unnin fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara. Þátttakendur voru meðal annars spurðir um almennt heilbrigði, viðhorf til heilbrigðisþjónustu, aðstoð sem þeir nýta sér, félagslega virkni og fleira. Könnunin náði til 1.800 manns af landinu öllu sem eru 67 ára eða eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert