Flugvélarnar ein af annarri í loftið

mbl/ Sigurgeir Sigurðsson

Farþegum, sem þurftu að yfirgefa Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrr í dag af öryggisástæðum, hefur öllum verið hleypt í gegnum vopnaleit og inn á brottfararsvæðið. Flugvélarnar sem seinkaði vegna þessa eru að leggja af stað ein af annarri og hafa þegar nokkrar farið.

Frétt mbl.is: Verið að klára vopnaleitina

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ISAVIA en rýma þurfti flugstöðina vegna farþega sem komu til landsins með flugvél frá Grænlandi en fóru fyrir mistök ekki í gegnum vopnaleit hér á landi eins og til stóð. Blönduðust þeir öðrum farþegum og fyrir vikið þurfti í samræmi við öryggisreglur að rýma flugstöðina og senda alla farþega aftur í gegnum vopnaleit.

„Isavia vill þakka farþegum fyrir að sýnda biðlund og vonum við að þetta hafi ekki haft mikil áhrif á ferðalög þeirra. Við viljum líka þakka starfsfólki allra þjónustuaðila á Keflavíkurflugvelli fyrir að bregðast hratt og örugglega við þessum aðstæðum sem sköpuðust þegar rýma þurfti brottfararsvæðið,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert