Glatt landann með tónum í 95 ár

Lúðrasveit Reykjavíkur var stofnuð 7. júlí 1922 þegar tveir lúðraflokkar …
Lúðrasveit Reykjavíkur var stofnuð 7. júlí 1922 þegar tveir lúðraflokkar sameinuðust í eina sveit. Hefur sveitin starfað óslitið síðan.

Lúðrasveit Reykjavíkur heldur í dag upp á 95 ára afmæli sitt með stórtónleikum í Hörpu í Reykjavík, en sveitin varð til þegar tveir lúðraflokkar, Harpan og Gígja, sameinuðust í eina sveit 7. júlí 1922. Síðan þá hefur lúðrasveitin starfað óslitið og oftar en ekki glatt landann á hátíðisdögum þjóðarinnar og á tónleikum sínum í gegnum árin.

„Á efnisskrá kvöldsins eru eingöngu tónverk eftir núverandi og fyrrverandi meðlimi sveitarinnar,“ segir Lárus Halldór Grímsson, stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur til 19 ára, og vísar í máli sínu til afmælistónleikanna sem fram fara í salnum Kaldalóni í Hörpu kl. 20 í kvöld.

Frumflutt verða verk eftir Unni Malín Sigurðardóttur og Þóri Hermann Óskarsson, en að auki verða flutt eldri verk eftir Daníel Þröst Sigurðsson, Báru Sigurjónsdóttur, Lárus Halldór Grímsson, Árna Björnsson, Karl Ottó Runólfsson og Pál Pampichler Pálsson. Einleikarar á klarínett eru Kristján Rúnarsson og Thekla Stokstad.

„Við munum svo síðar á árinu halda áfram og spila þá meiri tónlist sem sérstaklega var samin fyrir lúðrasveitina, en af nógu er að taka í þeim efnum,“ segir Lárus Halldór og bendir á að á löngum ferli sínum hefur sveitin gefið út fimm hljómplötur og diska. Fyrsta platan, sem kom út árið 1968, var lítil 45 snúninga plata og á henni lék sveitin meðal annars þjóðsönginn. Tvær þær næstu voru 12 laga, gefnar út af Svavari Gests, og komu þær út árin 1972 og 1975. Fjórða plata lúðrasveitarinnar var tekin upp á 80 ára afmælistónleikum sveitarinnar árið 2002, en fimmta platan kom út fyrir jólin 2007 og má á henni finna valin verk frá vetrinum 2006 til 2007.

Hljómskálinn var byggður til að hýsa sveitina.
Hljómskálinn var byggður til að hýsa sveitina. mbl.is/Arnaldur Halldórsson


Þýskar og austurrískar rætur

Tengsl Lúðrasveitar Reykjavíkur við þýska og austurríska lúðrasveitarmenningu eru rík. Fyrsti stjórnandi sveitarinnar var Þjóðverjinn Otto Böttcher, en hann stýrði sveitinni fyrstu þrjú árin. Páll Ísólfsson tók við af honum og stýrði sveitinni í 13 ár, en þá tók hinn þýski Albert Klahn við keflinu. Kom hann hingað til lands árið 1936 og stjórnaði t.a.m. minningarathöfninni um franska rannsóknarskipið Pourquoi Pas? sem fórst við strendur Íslands sama ár. Þekktasti stjórnandi sveitarinnar er að líkindum Páll Pampichler Pálsson, sem upphaflega kom frá Austurríki. Hann stjórnaði lúðrasveitinni í 26 ár, frá 1949 til 1975.

Þá er vert að benda áhugasömum á að enn er hægt að nálgast miða á tónleikana á vef Hörpu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert