Ingó og Rakel innlyksa án matar

Ingó og Rakel hafa verið á ferðalagi vikum saman. Þau …
Ingó og Rakel hafa verið á ferðalagi vikum saman. Þau voru innlyksa á hóteli á meðan fellibylurinn Debbie gekk yfir Ástralíu. Ljósmynd úr einkasafni

Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Ingó veðurguð, var innilokaður án matar á hótelherbergi í Ástralíu í 48 klukkustundir á meðan fellibylurinn Debbie gekk yfir svæðið. Ingó er í heimsreisu ásamt kærustu sinni, Rakel Hjaltadóttur. Rafmagnslaust varð á svæðinu á meðan bylurinn gekk yfir og varð sími Ingós því ítrekað rafmagnslaus á meðan mbl.is reyndi að taka viðtal við hann í gegnum Facebook. „Ég er hættur að vorkenna sjálfum mér þegar ég þarf að skafa bílinn a morgnana. Eftir reyndar alla heimsreisuna hef ég lært að það að búa á Íslandi er frábært miðað við nánast öll önnur lönd og ég mun alla vega væla minna,“ sagði Ingó í samtali við mbl.is nú um hádegið.

„Það er allt búið að vera rafmagnslaust i rúma 48 tíma og við erum búin að vera lokuð inni á hótelherbergi með engan mat, ekkert rafmagn i kolniðamyrkri að hlusta a storminn og horfa á hann rífa niður tré og annað,“ skrifaði Rakel um reynsluna á Facebook. „Að sitja í myrkri og vita ekki hvað tímanum líður á meðan að maður vonar að húsið haldi fyrir óveðri er ótrúlegt svo ekki sé meira sagt.“

Fengu loks korn og brauð

Parið er nú statt í strandbænum Airlie Beach í Queensland í Ástralíu eftir að hafa verið á ferðalagi um heiminn í tvo mánuði.

Til stóð að þau færu í tvær skipulagðar ferðir, m.a. siglingu, en Debbie hefur sett stórt strik í reikninginn. „Það vill nú ekki betur til en það að fellibylurinn Debbie var a hraðri leið að hitta akkúrat svæðið sem að við erum á og hafa síðustu dagar því snúist um það,“ segir Rakel. 

Báðum ferðunum var aflýst.

Bæjarbúar hafa frá því á mánudag verið að undirbúa sig fyrir komu Debbiar en allt var lokað um tíma.  „Þá máttum við þó fara út úr herberginu á meðan að það var enn bjart. Bylurinn skall á í gær [þriðjudag] og varði í allan gærdag og langt fram á nótt en þetta er stærsti bylur sem að hefur komið hingað i fylkið. “

Ingó og Rakel fengu að fara út úr hótelherberginu um 10 leytið í morgun að staðartíma og fengu þá morgunkorn og brauð að borða. „Við skoðuðum okkur aðeins um en hér er ennþá mikil rigning og vont veður.“

Rakel skrifar á Facebook að í bænum sé gjörsamlega allt í rúst. Hún segist finna mikið til með heimamönnum. „Það er ekki með nokkru móti hægt að lýsa skemmdunum sem að hafa orðið a öllu hérna. Búist er við að það verði áfram rafmagnslaust næstu 3-5 daga, svo mikill er skaðinn.“

Ingó og Rakel tókst loks að fá smá hleðslu á síma sína í bíl hótelstjórans og þannig gátu þau látið vita af sér. 

Kertin hafa bjargað geðheilsunni

Nú sitjum við i sitthvorum símanum að nýta hvert einasta rafhlöðu prósent áður en að þeir deyja aftur og við neyðumst til að halda áfram að tala við hvort við annað. Fengum tvö kerti í móttökunni svo að við erum ekki i algjöru myrkri eins og i gær. Hver hefði haldið að tvö kerti gætu bjargað geðheilsu?“

Rakel segir svo á gamansömum nótum að hún og Ingó skori á hvern sem er þorir í ólsen ólsen eða kleppara þegar heim verður komið enda hafi þau spilað grimmt síðustu klukkutímana í innilokuninni.

Ingó sagði við mbl.is í morgun að stefnan væri næst tekin á Fiji-eyjar. Það helgast þó að því hvort að þau komist til borgarinnar Brisbane í Ástralíu fyrir næsta þriðjudag. „Þar er allt á floti á vegunum í kring! En við vonum það besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert