Matvara ódýrari um næstu áramót

Innfluttir ostar, eins og þessir frönsku, munu lækka í verði …
Innfluttir ostar, eins og þessir frönsku, munu lækka í verði þegar tollasamningurinn tekur gildi. Flokkar á borð við jógúrt, smjörva og ís eru ekki í samningnum því tegundirnar eru viðkvæmar fyrir íslenskan landbúnað. mbl.is

Tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur tekur ekki gildi fyrr en um næstu áramót, ári seinna en upphaflega stóð til. Í lok síðasta árs var þó fyrirséð að gildistöku samningsins myndi seinka fram á mitt ár 2017.

Samningurinn felur í sér niðurfellingu tolla á unnum vörum fyrir utan jógúrt, smjörva og ís sem teljast vera meðal viðkvæmra vara fyrir íslenskan landbúnað. Að öðru leyti verða felldir niður tollar með gagnkvæmum hætti á um 100 nýjum tollalínum og samið um lækkun á 20 öðrum. Má því vænta lækkunar á vörum á borð við pítsur, bökur, fyllt pasta, súkkulaði, bökunarvörur, villibráð, franskar kartöflur og útiræktað grænmeti.

Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.
Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. mbl.is

Til að skapa svigrúm til aðlögunar fyrir viðkomandi búgreinar mun aukning kvótanna koma til framkvæmda á allt að fjögurra ára tímabili frá gildistöku samnings. Það felur í sér að búast má við að samningurinn verði að fullu kominn til framkvæmda öðru hvoru megin við áramótin 2021/2022. 

Ferlið hófst seinna ESB-megin en reiknað var með

Ástæður seinkunarinnar má rekja til Evrópusambandsins, en Evrópuþingið þurfti að samþykkja samningana og hófst ferlið þar seinna en áður hafði verið reiknað með að sögn Borgars Þórs Einarssonar, aðstoðarmanns Guðlaugs Þór Þórðarsonar utanríkisráðherra. Alþingi samþykkti samninginn fyrir sitt leyti í lok síðasta kjörtímabils og var samningurinn loks undirritaður á dögunum, eða 23. mars.

Frá því að staðfestingarferli samningsins er lokið af hálfu beggja aðila líða nokkrir mánuðir fram að gildistöku þar sem svigrúm gefst til að breyta reglum til að hrinda samningum í framkvæmd við gildistöku hans.

Frá Evrópuþinginu í Strassborg. Mynd úr safni.
Frá Evrópuþinginu í Strassborg. Mynd úr safni. AFP

Nokkurra ára aðdragandi

Aðdraganda samningsins má rekja aftur til ársins 2011 þegar hagsmunasamtök óskuðu eftir því að hafnar yrðu viðræður við ESB um aukna tollfrjálsa innflutningskvóta, einkum fyrir lambakjöt og skyr. 

Um aukinn markaðsaðgang Íslands á markað ESB fylgdu gagnkröfur um greiðari aðgang ESB til handa íslenskum markaði og samþykktu stjórnvöld hér á landi að hefja viðræður við ESB sem lauk með áritun þriggja samninga í september 2015 um viðskipti með hefðbundnar landbúnaðarvörur, gagnkvæma vernd afurðaheita sem vísa til uppruna og aukinn markaðsaðgang fyrir unnar landbúnaðarvörur.

Meginniðurstaða samninganna varð sú að tollfrjálsir innflutningskvótar Íslands fyrir skyr og lambakjöt til ESB voru stórauknir auk þess sem Ísland fékk nýja kvóta fyrir aðrar kjöttegundir inn til ESB. Því á móti voru tollfrjálsir kvótar ESB fyrir nautakjöt, osta, svínakjöt, pylsur og aðrar kjötvörur auknir umtalsvert og bætt við nýjum kvóta fyrir alifuglakjöt hingað til lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert