Hjúkrunarfræðingar flykkjast í flugfreyjuna

Starfsfólk vantar í heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg.
Starfsfólk vantar í heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hjúkrunarfræðinga vantar í 6 til 8 stöðugildi hjá Reykjavíkurborg í heimahjúkrun og á hjúkrunarheimilin Droplaugarstaði og Seljahlíð. Einnig er skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum í sumarafleysingar. Reykjavíkurborg hefur auglýst í marga mánuði en án árangurs.

„Staðan hefur aldrei verið jafnslæm. Oftast er fólk á biðlista um að koma til starfa hjá okkur. Það sem við sjáum núna er að hjúkrunarfræðingar streyma í flugfreyjustörf,“ segir Berglind Magnúsdóttir sem starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún segir skort á starfsfólki í heilbrigðisþjónustu hafa verið viðvarandi undanfarna 12 mánuði.

Auglýst hefur verið eftir teymisstjóra hjúkrunar í heimahjúkrun frá 27. janúar. Enginn hefur sótt um. Síðasta sumar var heimahjúkrun með auglýsingu um sjúkraliðanema í tvo mánuði en enginn sótti um.  

Á einu ári, frá apríl 2016, hafa sótt um 12 hjúkrunarfræðingar og 30 hjúkrunarfræðinemar og 29 sjúkraliðar og 8 sjúkraliðanemar. Þetta er fyrir allt síðasta ár og þar með talið í sumarafleysingu.

Frá áramótum hefur Reykjavíkurborg verið í stórátaki við að auglýsa, að sögn Berglindar. Fjöldi auglýsinga hefur birst í blöðum, hjá fagfélögum og samfélagsmiðlar hafa mikið verið notaðir.

Reykjavíkurborg hefur séð um heimahjúkun til 2000 einstaklinga á ári frá árinu 2009 samkvæmt þjónustusamningi við ríkið. Áður sá ríkið um að veita þessa þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert