Heimspeki verði skyldufag í skólum

Katla Hólm Þórhildardóttir.
Katla Hólm Þórhildardóttir. Ljósmynd/Píratar.is

Verði þingsályktunartillaga sem sjö þingmenn frá Pírötum og Samfylkingunni hafa lagt fram á Alþingi samþykkt verður heimspeki skyldufag bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Fyrsti flutningsmaður er Katla Hólm Þórhildardóttir, varaþingmaður Pírata. Tillagan hefur tvisvar áður verið flutt en ekki náð fram að ganga.

„Markmið tillögunnar er að efla kennslu í heimspeki og að kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi,“ segir í greinargerð. Rifjað er upp að þingmannanefnd sem fjallað hafi um rannsóknarskýrslu Alþingis hafi hvatt til þessa.

„Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert