Íhuga að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn

Drengurinn fæddist í Bandaríkjunum árið 2013.
Drengurinn fæddist í Bandaríkjunum árið 2013. AFP

Konur sem fá ekki að skrá sig sem foreldra drengs sem staðgöngumóðir fæddi í Bandaríkjunum, íhuga að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Hæstirétt­ur hef­ur staðfest niður­stöðu héraðsdóms í máli kvennanna tveggja sem fóru fram á að dreng­urinn yrði skráður sem son­ur þeirra hjá Þjóðskrá. Barnið fæddist fyrir fjórum árum og var bæði gjafaegg og gjafasæði notað. Bandarískur dómstóll hefur staðfest að konurnar tvær séu foreldrar drengsins. Á það féllst Þjóðskrá ekki og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu. 

Í dóm­n­um seg­ir Hæstirétt­ur m.a. að sam­kvæmt ís­lensk­um lög­um sé sú kona sem alið hef­ur barn sem getið var með tækni­frjóvg­un móðir barns­ins og aðrar kon­ur ekki.

Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður sagði í fréttum RÚV að dómstólum hér á landi bæri að viðurkenna erlenda dóma um persónulega réttarstöðu almennings. „Nema að það sé talið að dómurinn eða niðurstaða hans gangi gegn réttarvitund almennings eða gangi gegn grunnreglum íslenskra laga og það er það sem niðurstaðan byggist á í þessum hæstaréttardómi. Ég vil vekja máls á því líka að ef hann er ekki skráður eins og öll önnur börn á Íslandi eru skráð að þá er auðvitað verið að mismuna honum vegna hans uppruna.“

Í niðurstöðu Hæstaréttar var bent til dóma­fram­kvæmd­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu, sem hef­ur gengið út frá því að í því til­viki þegar eng­in líf­fræðileg tengsl séu milli barns sem alið hef­ur verið af staðgöngumóður og hjóna sem hafa verið sam­vist­um við það, mynd­ist ekki með þeim fjöl­skyldu­tengsl.

Dóm­ar­arn­ir taka hins veg­ar einnig fram að tengsl kvenn­anna við barnið öðluðust fyrst stjórn­ar­skrár­vernd eft­ir að barna­vernd­ar­nefnd samþykkti að barnið skyldi vistað hjá þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert