Gisting og farþegaflutningar gætu hækkað um 10,4%

Ef hækkun virðisaukaskatts á flestar tegundir ferðaþjónustu fer að fullu út í verðlagið má gera ráð fyrir það leiði til þess að verð á gistingu, farþegaflutningum, ferðaskrifstofum og baðstöðum hækki um 10,4%. Þetta er mat sérfræðinga fjármálaráðuneytisins. Metur ráðuneytið það sem svo að breytingin hækki heildarkostnað dæmigerðs ferðamanns í kringum 4%, að öllu öðru óbreyttu.

Áformin um að færa ferðaþjónustuna úr 11% virðisaukaskatti í efra þrepið, sem er 24% í dag, voru útfærð þegar Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti nýja fjármálaáætlun til fimm ára í gær. Breytingin á að taka gildi 1. júlí 2018, eða 15 mánuðum frá tilkynningu, og hálfu ári síðar, eða 1. janúar 2019, á efra og almenna þrep virðisaukaskattsins að lækka í 22,5%.

Í áætluninni er gengið lengra og sagt að þegar framvindan í opinberum fjármálum liggi betur fyrir verði skoðað hvort rými sé fyrir frekari lækkun niður í 22,0%.

Forsvarsmenn í ferðaþjónustunni hafa harðlega mótmælt fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á greinina og sagt hana fela í sér um 20 milljarða aukna skattbyrði á greinina. Fjármálaráðuneytið áætlar á hinn bóginn að auknar tekjur af þrepatilfærslu ferðaþjónustunnar gætu að öðru óbreyttu orðið tæpir 9 milljarðar á seinni hluta ársins 2018 en um 17,5 milljarðar á ársgrundvelli frá og með árinu 2019. Á móti komi svo lækkun almenna þrepsins í 22,5% sem talin er leiða til 13,5 milljarða lækkunar á tekjum ríkissjóðs á ári. Nettó tekjuáhrif af tilfærslu ferðaþjónustu í almennt þrep gætu þannig orðið um 16 milljarðar á ári að teknu tilliti til lækkunar almenna þrepsins að mati ráðuneytisins.

Áformin um að færa ferðaþjónustuna úr 11% virðisaukaskatti í efra …
Áformin um að færa ferðaþjónustuna úr 11% virðisaukaskatti í efra þrepið, sem er 24% í dag, voru útfærð þegar Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti nýja fjármálaáætlun til fimm ára í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hvað hækkar?

Veitingaþjónusta verður áfram í lægra þrepinu til samræmis við matvæli. Þannig mun hvers kyns sala framreidds matar og drykkjar, hvort sem hún fer fram á veitingastöðum, mötuneytum eða öðrum sölustöðum, áfram skattlögð í neðra þrepi á sama hátt og matur og drykkur í verslunum.

Eftirtalin starfsemi verður hins vegar færð upp í efra skattþrepið gangi þessi áform eftir; gistiþjónusta, ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og ferðafélög, fólksflutningar í afþreyingarskyni og ferðir á vegum ferðaþjónustufyrirtækja, aðgangseyrir að heilsulindum og ferðaleiðsögn.

Áhrifin á verðbólgu af tilfærslu ferðaþjónustunnar á milli skattþrepa eru ekki talin verða mikil og leiða til 0,06% til hækkunar á vísitölu neysluverðs en á móti muni lækkun þrepsins í 22,5% leiða til 0,47% lækkunar á vísitölunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert