Sterk geðlyf aldraðra líklega ofnotuð

Um 24% aldraðra á hjúkrunarrýmum notar sterk geðlyf í öðrum …
Um 24% aldraðra á hjúkrunarrýmum notar sterk geðlyf í öðrum tilfellum en mælt er með. mbl.is/Eggert

Um 24% íbúa í hjúkrunarrýmum á landinu öllu nota sterk geðlyf í öðrum tilfellum en mælt er með, samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis yfir níu mánaða tímabil frá 1. júní 2016 til 28. febrúar 2017.  

Embætti landlæknis gerir ekki athugasemdir við notkunina því hún er undir efri mörkum gæðaviðmiðanna sem eru 31,1%. Þessar upplýsingar eru fengnar úr RAI gagnagrunni og matsskýrslum sem unnar  eru upp úr þeim. Öll hjúkrunarheimili á landinu eru tengd þessum grunni.

„Þessi sterku geðlyf eru í sumum tilfellum gefin fólki sem er með hegðunarvandamál og óróleika sem getur oft tengst vitrænni skerðingu, svo sem hjá heilabiluðu fólki,“ segir í svari Embættis landlæknis um hvers vegna þessi sterku lyf séu gefin.

Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum, segir mjög líklegt að þessi lyf séu ofnotuð. „Almennt talað er æskilegt að gefa eldra fólki sem minnst af sterkum geðlyfjum í sem stystan tíma, svipað og sýklalyf,“ segir Pálmi því aukaverkanir sterkra geðlyfja eru varasamar. Uppgefnar tölur um þessa notkun er góð ástæða til þess að kafa dýpra í málið, að mati Pálma.

Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum.
Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum. Ljósmynd/Landspítali

Geðheilsu eldra fólks ekki nægur gaumur gefinn 

Því miður er geðheilsu aldraðra ekki nægilegur gaumur gefinn, að mati Pálma. Fyrir 20 árum leiðbeindi Pálmi Hilmari Kjartanssyni læknanema þá, en nú yfirlækni á bráðamóttöku Landspítala, í rannsókn á geðlyfjanotkun á elli- og hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu.

Pálma vitanlega hafa ekki verið gerðar sambærilegar rannsóknir eða unnið frekar með þessar upplýsingar á kerfislægum grunni, en full ástæða væri til þess.

Í þeirri rannsókn kom í ljós að einungis 16% voru án geðlyfja, 39% voru á lyfi úr einum geðlyfjaflokki, 36% í tveimur flokkum og 9% úr þremur flokkum. Flokkarnir sem um var að ræða voru; róandi lyf og svefnlyf, þunglyndislyf, og sterk geðlyf. Þegar sterk geðlyf voru skoðuð sérstaklega, þá voru 65% einstaklinga á deildum fyrir fólk með heilabilun á sterkum geðlyfjum en 15% á almennum deildum.

Það kom fram í gögnunum að á einingum fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma voru 50% með kvíða, óróleika og eða geðrofseinkenni. Einkenni löguðust í 60-98% tilfella, mismunandi eftir einkennum. Þá sýndi skoðun á breytingum og aðlögun lyfja var gerð í 45% tilvika á 6 mánaða tímabili þar sem einstaklingar voru á sterkum geðlyfjum.

Það sem þessar niðurstöður benda til er að það er verið að glíma við mikilvæg einkenni, að sögn Pálma en meðferð á hjúkrunarheimili er í raun líknarmeðferð. „Það er verið að reyna að bæta líðan fólks eins og kostur er en það er alls ekki alltaf auðvelt. Það er einnig samkvæmt þessum gömlu tölum verið að fylgjast með talsvert með meðferðinni og hagræða henni sem er jákvætt,“ segir Pálmi.  

Ekki nægur gaumur er gefinn að geðheilsu eldra fólks.
Ekki nægur gaumur er gefinn að geðheilsu eldra fólks. mbl.is/Styrmir Kári

Þarf samstillt átak

Vandinn við notkun á sterkum geðlyfjum er margþættur og því líklegt að nálgast þurfi málið með margvíslegum hætti, að mati Pálma. Auk þess að greina notkunina nákvæmlega þarf samstillt átak samhliða öflugu gæðastarfi til að ná árangri. Ef minnka á notkun sterkra geðlyfja í heild sinni þá þarf að vinna að því að færri fái lyfin, en einnig að þeir sem fái lyfin, fái þau sterku geðlyf sem þolast skást hjá eldra fólki, en einnig í sem minnstum skömmtum og í sem allra skemmstan tíma.

Ef lyf þarf á annað borð, þá kemur stundum til álita að nota fremur svo kölluð þunglyndislyf en sterk geðlyf, en þau hafa oft góð áhrif en með minni aukaverkunum. Til þess að draga úr lyfjanotkun er auðvitað mikilvægast að skoða hvers konar aðra kosti en lyf, þar með talið að greina undirliggjandi líkamlega þætti, sem gætu gefið einkennin, til dæmis verki. Aðra má nálgast með atferlismeðferð. Aðlögun umhverfis og frekari menntun starfsfólks í nálgun fólks með andlega vanlíðan er lykilatriði. Nálgun án lyfja er alltaf ákjósanlegust ef hún dugir til. 

Samstillt átak þarf til að draga úr notkun sterkra geðlyfja …
Samstillt átak þarf til að draga úr notkun sterkra geðlyfja aldraðra. mbl.is/Ómar

Brýnt að bæta öldrunargeðlækningar

Pálmi bendir á að brýnt sé að bæta öldrunargeðlækningar því að þann þátt í þjónustu við eldra fólk vantar nú sárlega og hefur gert í langan tíma. Tveir öldrunargeðlæknar voru starfandi á Íslandi fyrst á þessari öld en þeir fóru út landi eftir hrunið árið 2008. Starf þeirra gaf mikinn árangur og sýndi svo ekki varð um villst hve nauðsynleg slík læknisþjónusta er, að sögn Pálma.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bent er á að bæta þurfi geðlækningar fyrir aldraða. Það voru áform um að koma öldrunargeðdeild á laggirnar árið 2006 og fyrir lá skilgreind verkáætlun. Í fyrsta áfanga var göngudeild öldrunargeðlækninga opnuð. Útbúa átti 14 manna legudeild við Landspítalann í öðrum áfanga þegar hrunið varð. Þriðji áfangi laut að víðtæku ráðgjafastarfi við samfélag og hjúkrunarstofnanir um landa allt.

Þessi áform runnu út í sandinn við fjármálahrunið 2008. „Nú er verið að aflétta gjaldeyrishöftum. Það væri vert að aflétta einnig þeim velferðarhöftum sem við höfum þurft að búa við undanfarin átta ár og hrinda fyrri áætlun í framkvæmd,“ segir Pálmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert