Ungir brotamenn veiti samfélagsþjónustu

Frumvarpið er sagt í takt við þróun á Norðurlöndum.
Frumvarpið er sagt í takt við þróun á Norðurlöndum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp þess efnis að sakborningar á aldrinum 15 til 21 árs fái að veita samfélagsþjónustu í stað þess að afplána fangelsisdóma.

Frumvarpið, sem felur í sér ný ákvæði í hegningarlögum, kveður á um að heimilt verði að setja sérstakt skilyrði um samfélagsþjónustu fyrir frestun fullnustu refsingar. Í dómi skuli þá tiltaka tímafjölda í samfélagsþjónustu og á hve löngum tíma hún skuli innt af hendi.

Forsenda þess að hún komi til álita sé þá að dómþolinn teljist hæfur til hennar á grundvelli athugunar á persónulegum högum hans, og að hann afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi.

Að auki myndi hún verða bundin þeim skilyrðum að viðkomandi dómþoli hljóti ekki kæru fyrir refsiverðan verknað á þeim tíma sem þjónustan sé innt af hendi, og að hann sæti umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákveður þegar samfélagsþjónusta er innt af hendi.

Til viðbótar megi ákveða að hún yrði bundin eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að dómþoli hlíti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, nám, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
  2. Að dómþoli neyti hvorki áfengis né ávana- og fíkniefna.

Leiðist ekki á braut frekari afbrota

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmið þess sé að hægt verði að veita ungum brotamönnum meira aðhald og þannig mögulega koma í veg fyrir að þeir leiðist á braut frekari afbrota.

„Í þessu augnamiði er lagt til að dómarar fái heimild til að setja viðbótarskilyrði fyrir skilorðsbundinni frestun á fullnustu refsingar skv. 57. gr. almennra hegningarlaga í formi samfélagsþjónustu þegar um er að ræða ungmenni á aldrinum 15–21 árs,“ segir í greinargerðinni.

„Með því móti mætti nýta samfélagsþjónustu fyrir þennan aldursflokk þegar skilorðsbundinn dómur hefur ekki nægt til að leiða viðkomandi inn á brautir löghlýðni. Hætt er við því að þetta fyrirkomulag verði til þess að dómarar dæmi ungmenni ítrekað í skilorðsbundið fangelsi og veigri sér við því að dæma þau til óskilorðsbundinnar refsingar.“

Fangelsið á Hólmsheiði. Á nokkrum rammgirtum svæðum við fangelsið má …
Fangelsið á Hólmsheiði. Á nokkrum rammgirtum svæðum við fangelsið má njóta útivistar mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ógagnsætt og vafi gagnvart stjórnarskrá

Bent er á það að á Íslandi hafi dómari einungis það úrræði, í mörgum málum, að dæma fólk í fangelsi, með eða án skilorðs.

Maður sem sé dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi geti svo sótt um það til Fangelsismálastofnunar að afplána heldur með samfélagsþjónustu.

Þannig er það á valdi stjórnvalds að ákveða hvort maður, sem dæmdur er í fangelsi, afplánar það frekar með samfélagsþjónustu eða ekki. Á þessu eru sagðir ýmsir ókostir.

„Í fyrsta lagi er vafamál hvort þetta uppfyllir skilyrði stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvaldsins, að stjórnvald breyti nýuppkveðnum dómum dómsvaldsins.

Í öðru lagi er þetta afar ógagnsætt. Ákvarðanirnar eru ekki birtar, eins og dómar, og því geta dómfelldir ekki áttað sig á hvort þeir njóti jafnræðis við aðra í svipaðri stöðu. Vegna þessa ógagnsæis geta verjendur heldur ekki upplýst skjólstæðinga sína nægilega, við meðferð máls, um hvers þeir geta vænst.“

Í samræmi við þróun á Norðurlöndum

Samfélagsþjónusta er þá sögð fela í sér tímabundið ólaunað starf í þágu samfélagsins, svo sem líknar- eða félagsstarf ýmiss konar, sem sé unnið utan vinnutíma dómþola þannig að hann geti stundað atvinnu sína eða nám á meðan og verið virkur þjóðfélagsþegn.

Úrræðið sé þó sjaldnast nýtt þegar kemur að ungum brotamönnum vegna þeirrar stefnu sem hefur verið mörkuð, að samfélagsþjónusta teljist fullnustuúrræði sem komi einungis til skoðunar í tilviki óskilorðsbundinna dóma samkvæmt lögum um fullnustu refsinga.

Óskilorðsbundnir dómar séu almennt ekki kveðnir upp yfir yngstu brotamönnunum, enda þrautalending, og sé einungis beitt í þeim málum þar sem talið er óverjandi með tilliti til almenningshagsmuna og réttaröryggis að beita skilorðsbundnum dómi.

„Það er ljóst að samfélagsþjónusta getur verið heppilegri en óskilorðsbundinn fangelsisdómur fyrir unga afbrotamenn ásamt því að hafa mögulega verulegt uppeldislegt gildi. Mikilvægt er að tryggja að slíkur valkostur sé til staðar fyrir dómstóla landsins í málum sem varða unga brotamenn.

Slíkt væri í samræmi við þróun á Norðurlöndum þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á úrræði til að hvetja ungmenni til góðrar hegðunar og leiða unga brotamenn aftur inn á brautir löghlýðni með margs konar stuðningi og eftirfylgni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert