6.250 íbúðir byggðar á næstu 5 árum

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kynnir húsnæðisáætlunina.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kynnir húsnæðisáætlunina. mbl.is/Árni Sæberg

Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir eru komin á framkvæmdastig í borginni og fjölgar þeim hratt. Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir að auki liggja fyrir í staðfestu skipulagi. Þetta kemur fram í drögum að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem voru kynnt á fjölmiðlafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

„Þessi húsnæðismarkmið eru róttæk, félagslega þenkjandi og stórhuga,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum. „Það þarf að byggja gríðarlega mikið.“

Í áætluninni kemur fram að um 4.000  íbúðir séu í formlegu skipulagsferli, auk þess sem svæði fyrir tæplega 10 þúsund íbúðir eru í þróun.

Lögð verður áhersla á að auka framboð lítilla og meðalstórra íbúða.

Borgin leggur samanlagt fram 59 milljarða til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða næstu fimm ár.

Megináhersla í húsnæðisáætlun borgarinnar er á samstarf við byggingarfélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir, fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur, og búsetu.

Félagslega blönduð hverfi

Á öllum nýjum þróunarsvæðum hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum. Hvort tveggja til að tryggja félagslega blöndun um alla borg. 

Dagur sagði mikilvægt að tryggja að borgin yrði ekki með ofurdýrum hverfum bara fyrir fólk með mikla peninga á milli handanna. Öll hverfi yrðu félagslega blönduð. „Það er lærdómur sögunnar að það býr til áhugaverðari og betri borg fyrir alla.“

Reykjavíkurborg hefur endurskoðað markmið aðalskipulags um að 700 íbúðir byggist á hverju ári.

Hið nýja markmið er að 1.250 íbúðir fari í smíði á hverju ári, næstu fimm ár, til að mæta árlegri uppbyggingarþörf, uppsafnaðri þörf vegna hægrar uppbyggingar eftir hrun og nýrri þörf vegna vaxtar ferðaþjónustu. 

Samkvæmt áætlunum Reykjavíkurborgar er stefnt að því að hafin verði uppbygging á um 7.000 nýjum íbúðum fram til ársloka 2020. Þar af er gert ráð fyrir vel yfir 3.000 íbúðum á vegum leigu- og húsæðisfélaga.

Borgin stefnir á að formleg og samþykkt húsnæðisáætlun verði tilbúin í maí, að lokinni umræðu um hana í borgarstjórn.  

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert