Aukið fé í húsnæði fyrir utangarðsfólk

Gistiskýlið við Lindargötu 48 rekur Reykjavíkurborg fyrir utangarðsfólk.
Gistiskýlið við Lindargötu 48 rekur Reykjavíkurborg fyrir utangarðsfólk. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2017 að kostnaður vegna búsetuúrræða fyrir utangarðsfólk í Reykjavík og fólk með áfengis- og vímuefnavanda nemi rúmum 343 milljónum króna og hækkar hann frá áætlun ársins 2016 um rúm 5%. Að óbreyttu verður heildarkostnaður til næstu fimm ára því um 1.718 milljónir króna.

Þetta kemur fram í drögum að húsnæðisáætlun borgarinnar sem voru kynnt í dag.

Á fundi borgarráðs 23. mars var lögð fram áætlun um breytingu á skipulagi og framkvæmd þjónustu við utangarðsfólk ásamt fylgigögnum. Í henni eru lögð til frekari búsetuúrræði fyrir utangarðsfólk og er kostnaður skv. áætluninni 50,5 milljónir króna árið 2017 og 67,8 milljónir króna árið 2018 þegar breytingarnar yrðu að fullu komnar í framkvæmd.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnir húsnæðisáætlunina á fjölmiðlafundi.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnir húsnæðisáætlunina á fjölmiðlafundi. mbl.is/Árni Sæberg

Sjá ekki eftir peningunum

Í húsnæðisáætluninni kemur fram að samkvæmt fjárhagsáætlun 2017 er gert ráð fyrir því að rúmar 160 milljónir króna fari til Gistiskýlisins sem er neyðarnæturathvarf fyrir heimilislausa karlmenn, tæpar 46 milljónir króna í stuðningsheimili við Miklubraut, tæpar 60 milljónir króna í Konukot og tæpar 77 milljónir króna í heimili fyrir heimilislausa.

„Við erum að setja nokkurt fé í þetta. Við sjáum ekki eftir þeim peningum en viljum að þeir nýtist sem best,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á borgarstjórnarfundi í dag og bætti við að mikilvægt sé að önnur sveitarfélög axli einnig ábyrgð á þessum málaflokki.

„Það er stundum í umræðunni eins og Reykjavík sé eina vonin í húsnæðismálum. Þetta er auðvitað stórt samfélagslegt verkefni.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert