Ekki bara beinir viðskiptahagsmunir

Þórir Guðmundsson.
Þórir Guðmundsson. Ómar Óskarsson

Hagsmunir ríkja felast ekki bara í beinum viðskiptahagsmunum heldur þarf að skoða málin í stærra samhengi. Þar kemur til dæmis hlutverk umhverfisverndar og þróunarsamvinnu inn í spilið með því að stuðla að stöðugleika og friði sem hefur svo þau áhrif að draga úr ólgu í fjölmörgum löndum og flóttamannastraumi. Þetta allt styður svo viðskiptahagsmuni til lengri tíma.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Þóris Guðmundssonar, deildarstjóra Rauða krossins í Reykjavík, á morgunfundi í Norræna húsinu um framtíð utanríkismála Íslands.

Nefndi Þórir sem dæmi að hann hefði verið um borð í björgunarskipi á Miðjarðarhafi þar sem yfir þúsund manns var bjargað á tveimur vikum. Sagðist hann hafa rætt við fjölmarga af þeim sem bjargað var og voru á leið frá Afríku yfir til Evrópu. Það hafi komið honum á óvart að fólkið var í raun ekki að sækja til Evrópu því þar væri allt svo frábært og eftirsóknavert, heldur var það að flýja eitthvað hræðilegt í sínu heimalandi.

Undanfarin ár hefur mikill straumur flóttafólks verið yfir Miðjarðarhafið. Þórir …
Undanfarin ár hefur mikill straumur flóttafólks verið yfir Miðjarðarhafið. Þórir segir að í samtali sínu við fólk sem hafi farið þessa leið hafi flestir sagst vera að flýja slæmar aðstæður heima fyrir. AFP

Síðar á fundinum var meðal annars nefnd barátta gegn eyðimerkurmyndun í heiminum og að slík þróun væri meðal annars orsakavaldur fyrir miklum fólkflutningum í Afríku. Með stækkun Sahara-eyðimerkurinnar skapaðist óvissa fyrir íbúa sem áður voru vel settir og áttu í sig og á, en lifðu nú í fátækt. Vegna þessa skapaðist óróleiki og jafnvel stríð sem ylli svo miklum fólksflutningum og jafnvel flótta.

Sagði Þórir að vegna þessa væri mikilvægt að horfa á þróunarsamvinnu og utanríkismál í stærra samhengi en bara okkar beinu viðskiptahagsmuni. Samhengið væri mun stærra og skipti okkur máli að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert