Fasteignafélögin stýrt ferðinni

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Guðfinna Jóna Guðmundsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, sagði á borgarstjórnarfundi að margt vantaði inn í drög að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem meirihlutinn hefði lagt fram.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti áætlunina á borgarstjórnarfundi í dag.

„Ég þakka borgarstjóra fyrir tæplega tveggja klukkustunda ræðu sem ég held að ég hafi hlustað á nokkuð oft áður,“ sagði Guðfinna Jóna.

„Það er ansi mikið sem mér finnst vanta inn í húsnæðisáætlun til þess að við vitum hvað er búið að vera að gerast síðustu árin. Borgarstjóri hóf ræðu sína á því að það hafi orðið hér hrun. Það eru komin ansi mörg ár síðan það hrun varð.“

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir.

Guðfinna bætti því við að töluvert væri síðan þjóðfélagið hefði farið í gang aftur. Á þeim tíma hefði Reykjavíkurborg getað úthlutað fleiri lóðum til stúdenta og fjölgað félagslegum leiguíbúðum.

„Stór hluti þessa vanda sem við eigum við að etja er vegna einstrengilegrar þéttingarstefnu og lóðaskorts,“ sagði hún og gagnrýndi hversu langan tíma það hafi tekið að skipuleggja og byggja í borginni.

„Áætlanir hafa ekki gengið eftir. Það eru fasteignafélögin og bankarnir sem hafa stýrt ferðinni í þessari borg, ekki Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert