Ferðamenn sem sáu ekki viðvaranirnar

Aftakaverður og mikil hálka varð til þess að rútan fór …
Aftakaverður og mikil hálka varð til þess að rútan fór út af. Ljósmynd/Agnar Benediktsson

Ferðamennirnir sem lentu í ógöngum í rútum uppi á Möðrudalsöræfum í dag eru nú komnir niður á Jökuldal, þar sem er mun skaplegra veður að sögn Agnars Benediktssonar hjá björgunarsveitinni Jökli. Fólkið er nú á leið niður á Egilsstaði, þar sem það mun bíða þar til fært verður yfir Fjarðarheiðina til Seyðisfjarðar.

Rúta með 53 farþegum fór út af veg­in­um við Svart­fell í Langa­dal og á svipuðum tíma lentu tveir rútukálf­ar í árekstri, í öðrum þeirra voru 16 manns og í hinum ein­ung­is ökumaður­inn. Eng­in slys urðu á fólki, en margir voru orðnir kaldir þegar björgunarsveitafólk kom á staðinn.

Vegna aftakaveðurs og mikillar hálku þurftu björgunarsveitir að flytja fólkið um 11 kíló­metra leið að af­leggj­ar­an­um niður að Vopnafirði þar sem aðrar rút­ur biðu farþeg­anna. Hinar rúturnar voru skildar eftir.

Björgunarsveitir ferjuðu fólkið um 11 km leið niður á Vopnafjarðarafleggjarann …
Björgunarsveitir ferjuðu fólkið um 11 km leið niður á Vopnafjarðarafleggjarann þar sem aðrar rútur biðu. Ljósmynd/Agnar Benediktsson

Á annað hundrað manns bíða á Egilsstöðum

Mjög slæmt veður var á slysstað, hvasst og snjó­koma. Vind­hraði var um 30 metr­ar á sek­úndu og allt að 40 metr­ar í vind­hviðum.

Hægt gekk að koma ferðamönnunum niður af Möðrudalsöræfum að sögn Agnars, en vegurinn þar yfir hefur verið lokaður í dag vegna veðurs og færðar. Hann segir lögreglu og björgunarsveitarmenn hafa þurft að stöðva fjölda ferðamanna á bílaleigubílum sem ætluðu yfir Möðrudalsöræfin í dag. Margir bíði nú á Jökuldalnum eftir að fá að fara yfir. „Þetta eru ferðamenn sem ekki sáu viðvaranirnar,“ segir hann og kveður vakt hafa verið við veginn í dag.

Það var þó ekki eingöngu umferð yfir Möðrudalsöræfin sem stöðvaðist, því að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum bíða nú á annað hundrað manns á Egilsstöðum eftir að komast yfir Fjarðarheiðina til Seyðisfjarðar, þar sem Norræna siglir út síðdegis á morgun. Er fólkið allt í góðu yfirlæti á hótelum og veitingastöðum bæjarins.

Búist er við að veður verði í hámarki alveg til klukkan níu í kvöld.

Mjög slæmt veður var á slysstað, hvasst og snjó­koma. Vind­hraði …
Mjög slæmt veður var á slysstað, hvasst og snjó­koma. Vind­hraði var um 30 metr­ar á sek­úndu og allt að 40 metr­ar í vind­hviðum. Ljósmynd/Agnar Benediktsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert