Ógildingarkröfu vegna Kröflulínu hafnað

Kröflulína 4 mun liggja frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjavirkjun.
Kröflulína 4 mun liggja frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjavirkjun. mbl.is/GSH

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu Landverndar og Fjöreggs um að ógilda ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um framkvæmdaleyfi fyrir Landsnet til að leggja Kröflulínu 4. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur hefur verið á vef nefndarinnar. 

Kröflulína 4 er 220 kV há­spennu­lína frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjavirkjun. Þaðan á svo að liggja áfram Þeistareykjalína 1 að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

Landsnet sótti fyrst um fram­kvæmda­leyfi í mars í fyrra sem Skútustaðahrepp­ur veitti. Land­vernd kærði þann úr­sk­urð og í fram­hald­inu felldi úr­sk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála leyfið úr gildi.

Í október veitti Skútustaðahreppur Landsneti framkvæmdaleyfi á ný og kærðu Landvernd og Fjöregg þá ákvörðun á ný til nefndarinnar. Í þetta skiptið ákvað nefndin þó að ekki þyrfti að stöðva framkvæmdir Landsnets meðan kæran væri tekin fyrir hjá nefndinni.

Í úrskurði nefndarinnar kemur nú fram að skipulagsnefnd Skútustaðarhrepps hafi vegið og metið þau neikvæðu umhverfisáhrif sem af framkvæmdinni verða og voru þau metin andspænis þeim hagsmunum sem vísað er til í fundargerð nefndarinnar.  „Þykir ákvörðun um veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis með þessu nægilega rökstudd í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, enda var rökstuðningurinn studdur málefnalegum rökum sem gagna nýtur við í málinu,“ segir í úrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert