„Þurfa gengisfestingu eins og þorskur þarf hjól“

Íslenska krónan hefur styrkst gríðarlega gagnvart helstu gjaldmiðlum á síðustu …
Íslenska krónan hefur styrkst gríðarlega gagnvart helstu gjaldmiðlum á síðustu misserum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er erfitt að finna að skopskyni Íslendinga. Fjármálaráðherra landsins valdi 1. apríl til að velta upp þeirri hugmynd að festa gengi gjaldmiðilsins, krónunnar, við evruna, og endurvekja þannig skammlífa stefnu frá árinu 2008.“

Á þessum orðum hefst grein breska viðskiptablaðamannsins George Hay, sem birtist á vef Reuters nú í kvöld. Fyrirsögnin er þá á þá leið að Íslendingar þurfi gengisfestingu við evruna álíka mikið og þorskur þarfnast reiðhjóls.

„Hugmyndin er að þetta gæti minnkað óstöðugleikann. Það virkaði ekki alltof vel þá, og myndi ekki hjálpa mikið núna heldur,“ segir svo í grein Hay.

Bendir hann á að stungið hafi verið upp á því að festa krónuna við evruna í október árið 2008, til að reyna að styðja við hana eftir að stærsti banki landsins, Landsbankinn, hrundi. Hugmyndin hafi svo fallið um sjálfa sig eftir að í ljós kom að stjórnvöld skorti gjaldeyrisforða og trúverðugleika til að verja gjaldmiðilinn.

HB Grandi er eitt þeirra fyrirtækja sem sagt hafa rekstrarumhverfi …
HB Grandi er eitt þeirra fyrirtækja sem sagt hafa rekstrarumhverfi erfitt vegna gengis krónunnar. mbl.is/Golli

Ættu að horfa til Kanada

Árið 2017 glími ríkið við gagnstætt vandamál, gengi krónunnar hafi hækkað mikið að undanförnu og þjóðarframleiðsla aukist samtímis mikilli fjölgun ferðamanna.

Að festa krónuna við evruna núna geti þá verndað útflutning íslensks sjávarútvegs á erlendum mörkuðum, og ef evran héldist stöðug gæti festingin haldið gengisstyrkingunni í skefjum.

En festingin gæti að hans sögn einnig valdið miklum erfiðleikum, ef of lágt gengi hefði í för með sér sprengju í útlánum banka.

„Ef Ísland vill virkilega festa gengið, þá gæti það fest sig við gjaldmiðil lands þar sem efnahagurinn er líkari, og hverfist um auðlindir, eins og í Kanada,“ skrifar Hay.

„Skásti möguleikinn væri hins vegar engin gengisfesting. Ólíkt öðrum löndum sem fóru illa út úr kreppunni og voru föst í of háu gengi, eins og Grikkland, þá virkaði gjaldmiðill Íslands eins og þrýstiloki frekar en hengingaról. [...] Innlendir hagsmunahópar gætu verið ósáttir, en það að fórna sveigjanleikanum gæti gert kreppur framtíðarinnar ennþá sársaukafyllri.“

Greinin á vef Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert