Fleiri fylgi vafalaust í kjölfarið

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Byggingareglugerðinni hefur vissulega verið breytt svo byggja megi minni íbúðir eins og komið hefur fram en hins vegar hefur reglugerðinni ekki verið breytt á neinn annan hátt. Þú getur ekki byggt litla íbúð nema hvað varðar fermetrafjöldann,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, í samtali við mbl.is en fyrirtækið hyggst reisa fjölbýlishús í Urriðaholtinu í Garðabæ með 36 litlum íbúðum sem einkum eru hugsaðar fyrir starfsmenn fyrirtækisins.

Hugmyndin var upphaflega að byggja mjög ódýrar íbúðir en af ýmsum ástæðum reyndist það ekki mögulegt þar sem kostnaður varð meiri en gert var ráð fyrir. Þannig var byggingalóðin dýr, ákveðið var í miðju hönnunarferlinu að láta svansvotta íbúðirnar sem hækkaði byggingarkostnað töluvert auk þess sem ákveðið var að spara hvergi varðandi gæði hönnunar og efnis. Þá gerði byggingareglugerðin framkvæmdina dýrari en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Frétt mbl.is: IKEA reisir blokk fyrir starfsmenn

Þórarinn bendir til að mynda á að samkvæmt byggingareglugerðinni þurfi að vera 5 fermetra baðherbergi í 25 fermetra íbúð og stærð svala taki ekki tillit til smæðar íbúða og hversu fáir séu líklegir til þess að vera í þeim komi til eldsvoða. „Ef þú ert með stóra íbúð fulla af fólki eiga allir að geta komist út á svalir og beðið í hálftíma eftir slökkviliðinu. En í einstaklingsíbúð eru líkurnar á að margir séu þar miklu minni einfaldlega vegna þess að færri komast fyrir þar.

Tölvuteikning af fyrirhuguðu fjölbýlishúsi IKEA.
Tölvuteikning af fyrirhuguðu fjölbýlishúsi IKEA. Teikning/IKEA

„Síðan er skylda að vera með anddyri og þú getur ímyndað þér að í 25 fermetra íbúa með 5 fermetra baðherbergi þá er ekki mikið til skiptana til að fara með í anddyri sem er aðeins hugsað vegna hljóðeinangrunar. Til þess að sleppa við anddyrið er hægt að setja upp svokallaða 45 desibila útihurð til að dempa hljóðið sem má hvorki vera með glugga og er margfalt dýrari en venjuleg útihurð. Það eru alls konar svona hlutir,“ segir Þórarinn.

Hvað svansvottunina varðar fylgir því talsverður kostnaður enda um ákveðið frumkvöðlastarf að ræða. „Það er alltaf dýrt að vera fyrstur. Svansvottað efni þarf ekkert endilega að vera dýrara í sjálfu sér en aftur á móti þarf að finna það og semja við einhvern um að flytja það inn. En á endanum segja menn að slík hús verði ódýrari í rekstri. Það eigi engin mygluvandamál til dæmis að koma upp og við vorum auðvitað að það gangi eftir.“

Reglugerðin slípist vonandi til með tímanum

Þannig hafi upphaflega verið gert ráð fyrir að leigan fyrir 25 fermetra íbúð yrði 70 þúsund krónur en væri nú talan komin í rétt undir 100 þúsund krónur. „Sem er samt nokkuð gott miðað við aðstæður. Það er rétt að 25 fermetra íbúð er ekki stór en hún er með þvottavél, fullbúnu eldhúsi með ískáp og eldavél og ofni og svo framvegir. Þannig að við erum ágætlega sátt við þetta og vonum að þegar fram líð stundir muni reglugerðin slípast til.“

Samstarfið við Mannvirkjastofnun og aðra aðila hafi verið gott en í vinnunni hafi einfaldlega verið rekist á veggi sem vonandi yrðu brotnir niður. „Síðan er vonandi að þetta verði bara hvatning fyrir aðra atvinnurekendur. Ég sá um daginn að Bláa lónið ætlar að byggja fjölbýlishús í Grindavík og ég veit að bæði Costco og Toyota hafa sýnt því áhuga að fá að vera með í þessu. Við þurfum ekki allar þessar 35 íbúðir allavega til að byrja með.“

Stærsta íbúðin í húsinu.
Stærsta íbúðin í húsinu. Teikning/IKEA

Þórarinn segist hafa trú á því að þetta sé aðeins byrjunin og fleiri eigi eftir að gera hliðstæða hluti. Hann bendir á að það sé sömuleiðis hagkvæmt í ljósi umræðu um lóðaskort að byggja fjölbýlishús með litlum íbúðum þar sem fermetrarnir eru nýttir í þaula. Þarna sé um að ræða íbúðir sem nýttust vel þeim sem væru einhleypir eða væru að byrja búskap. Það væri ákveðin tilhneiging til þess að byggja alltof stórar íbúðir á Íslandi og kalla þær litlar.

Hönnuðir íbúa gjarnan fólk á miðjum aldri

„Ég held að hluti af vandanum sé að þessar íbúðir, 60-80 fermetra, eru hannaðar af fólki á miðjum aldri sem notar sjálft sig sem viðmið. Ég hef safnað fullt af dóti að mér í gegnum tíðina sem ég átti ekki þegar ég var að hefja búskap. Ungt fólki í þeirri stöðu er ekki með svona mikið með sér. Ég á til dæmis bílskúr og það er aldrei bíll inni í honum. Ef maður hefur plássið þá hefur maður tilhneigingu til þess að fylla það. En þetta þarf að breytast,“ segir hann.

Þórarinn segir hann og starfsfólk hans hafa verið mjög stíf á því að halda sig við 25 fermetra til þess að sýna að það væri hægt að byggja slíkar íbúðir og búa í þeim með góðu móti. „Þetta hefur verið í vinnslu í tvö á og það hefur ítrekað verið reynt að toga fermetrana upp. Þessar íbúðir eru upphaflega hannaðar af innanhúsarkitektum IKEA og síðan tóku arkitektar við. Þannig að þetta er alveg útpælt og við eigum að ná alveg topp nýtingu í þessu.“

Byrjað verður í þessum mánuði að fjarlægja lausan jarðveg og steypa sökkulinn og er stefnt að því að fyrstu íbúarnir geti flutt inn síðla á næsta ári.

Stúdíóíbúð í fjölbýlishúsinu.
Stúdíóíbúð í fjölbýlishúsinu. Teikning/IKEA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert