4.000 nýjar íbúðir í Laugardalnum

Vogabyggð.
Vogabyggð. Mynd/Teiknistofan Tröð + Ivantspijker og Felix

Í Laugardalnum eru hátt í fjögur þúsund nýjar íbúðir í burðarliðnum á næstu árum. Þetta kemur fram í drögum að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sem voru kynnt á þriðjudaginn.

 

Íbúðir sem eru á byggingasvæði á framkvæmdastigi eru 212 talsins. Á Bílanaustreit-Mánatúni verða 44 íbúðir og verður meðalstærð þeirra 85 fermetrar. Íbúðirnar eru allar í eigu húsnæðisfélaga.

Á Höfðatorgi I verða 94 íbúðir og þar verður meðalstærðin 95 fermetrar.

Á Suðurlandsbraut 68-70, eða í Mörkinni, verða 74 þjónustuíbúðir. Meðalstærð þeirra verður 54 fermetrar og þar verða allar íbúðirnar í eigu húsnæðisfélaga.

Íbúðir sem eru í samþykktu deiliskipulagi í Laugardalnum eru 1.362 talsins. Þar munar mest um 776 íbúðir sem eru fyrirhugaðar í Vogabyggð II. Meðalstærð þeirra verður 86 fermetrar og verður 25% þeirra í eigu húsnæðisfélaga.

Voga­byggð kall­ast það svæði sem af­mark­ast af Sæ­braut, Klepps­mýr­ar­vegi, Elliðaárós­um og frá­rein Miklu­braut­ar að Sæ­braut.

Nýju íbúðirnar við Kirkjusand.
Nýju íbúðirnar við Kirkjusand. Mynd/ASK Arkitektar

Á Kirkjusandi eru 300 íbúðir væntanlegar. Þar verður meðalstærðin 110 fermetrar og verða 38,3% þeirra í eigu húsnæðisfélaga.

Á Blómavalsreitnum verða 110 íbúðir. Meðalstærð þeirra verður 123 fermetrar. Fjölbýlishús eru fyrirhuguð á reitnum, auk þess sem stækka á Grand Hótel. Íbúar í nærliggjandi götum hafa mótmælt uppbyggingunni.

Svona er gert ráð fyrir að Blómavalsreiturinn líti út.
Svona er gert ráð fyrir að Blómavalsreiturinn líti út. Mynd/Atelier arkitektar

Alls verða 100 íbúðir á Sætúnsreitnum þar sem meðalstærðin verður 100 fermetrar og á Höfðatorgi II verða 76 íbúðir af meðalstærðinni 97 fermetrar.

Þrír reitir eru í formlegu skipulagsferli. Í Vogabyggð I verða 330 íbúðir. Meðalstærð þeirra verður 100 fermetrar og eiga húsnæðisfélög 20% í þeim.

Mun fleiri íbúðir eru fyrirhugaðar í Skeifunni, eða 750 talsins. Ekkert kemur fram um meðalstærð þeirra í húsnæðisáætluninni en 25% þeirra verða í eigu húsnæðisfélaga.

Samráðs- og kynningarfundur var haldinn um Skeifuna á þriðjudaginn með hagsmunaaðilum. 

Mikil uppbygging er fyrirhuguð í Skeifunni.
Mikil uppbygging er fyrirhuguð í Skeifunni. mbl.is/Styrmir Kári

Á Borgartúnsreitum eru 180 íbúðir í undirbúningi þar sem meðalstærðin verður 70 fermetrar.

Íbúðir á þróunarsvæði sem er í skoðun eða undirbúningi eru 1.025 talsins. Þar af eru 800 íbúðir fyrirhugaðar í Vogabyggð III og IV og 225 íbúðir á SS-reitnum. Ekkert kemur fram um stærð þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert