Gera ekki athugasemdir við umhverfisvænt fiskeldi

Jón Helgi Björnsson á Laxamýri, formaður Landssambands veiðifélaga, með fyrsta …
Jón Helgi Björnsson á Laxamýri, formaður Landssambands veiðifélaga, með fyrsta lax síðasta sumars á svæðum Laxárféalgsins í Aðalfal. Með honum er systir hans, Halla Bergþóra Björnsdóttir. Einar Falur Ingólfsson

„Við erum ekki á móti fiskeldi, heldur viljum við koma í veg fyrir að það hafi áhrif á villta lax- og silungsstofna hér á landi. Ef menn ala fiskinn í landstöðvum eða finna leiðir til að gera það í hafinu án áhrifa á umhverfið gerum við ekki athugasemdir við það,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Samtökin hafa varað sterklega við áformum um stóraukið fiskeldi í sjókvíum hér við land.

Landssambandið berst gegn áformum um margföldun eldisins og sérstaklega gegn áformum um að hefja eða stórauka laxeldi í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði. Sjókvíaeldi er ekki bannað í þessum fjörðum þótt þar séu lax- og silungsveiðiár.

Smit magnast upp í eldi

Jón Helgi nefnir þrjú atriði þegar hann er spurður um hættuna af fiskeldi fyrir náttúrulega fiskistofna. Það eru aukin hætta á lúsasmiti og sjúkdómum og erfðamengun í villtu stofnunum.

Varðandi lúsasmitið segir Jón að örfáar lúsir á náttúrulegum laxi sýni að hann sé nýgenginn úr sjó og valdi honum ekki erfiðleikum. Smitið magnist hins vegar upp í eldi. Það hafi tvenns konar áhrif á villta laxastofna. Annars vegar geti seiðin sem gangi til sjávar orðið fyrir miklu smiti þegar þau gangi framhjá kvíunum. Erlendis hafi það valdið miklum afföllum í laxastofnum.

Þá geti aukið lúsasmit haft mikil áhrif á stofna bleikju og sjóbirtings sem verði fyrir ítrekuðu smiti í fjörðum þar sem sjókvíar eru. „Í Eyjafirði er augljóslega veruleg hætta á því. Þar eru stórir bleikjustofnar sem hafa verið í lægð. Við teljum að fiskeldi myndi valda miklu álagi á þá, jafnvel svo að aldrei aftur yrði leyfð veiði á bleikju í Eyjafirði á meðan eldi væri stundað þar. Laxalúsin er það vandamál sem Norðmönnum hefur gengið einna verst að finna lausn á, hún veldur þeim miklum búsifjum,“ segir Jón Helgi.

Varðandi aukna hættu á sjúkdómum segir hann að í þéttu eldi magnist upp sjúkdómar. Nefnir hann nýrnaveiki sem kom upp í nokkrum stöðvum hér á síðasta ári og olli miklu tjóni þótt menn hafi eflaust reynt að vanda sig. Það sýni áhættuna. Þá getur hann um skæðan veirusjúkdóm, ISA, sem komið hefur upp í nágrannalöndunum og valdið miklu tjóni. Nú síðast kom hann upp á eldissvæði í Færeyjum. Þarf fyrirtækið Bakkafrost að slátra öllum laxi þar og er áætlað að tjónið samsvari 1,6 milljörðum króna, samkvæmt færeyskum fjölmiðlum.

„Við vitum að það eru ýmsir sjúkdómar í náttúrunni þótt við höfum blessunarlega verið lausir við þá í villtum fiskum. Þeir magnast upp í eldi og breiðast út,“ segir Jón Helgi.

Missir erfðaeiginleika

Veiðifélögin hafa þó langmestar áhyggjur af erfðamengun villtra laxastofna hér á landi. „Sá norski lax sem verið er að nota er með aðra erfðauppbyggingu en íslenskur lax. Hann hefur verið kynbættur mikið svo hann henti í eldi. Þegar verið er að ala jafn mikið magn og til dæmis er verið að tala um í Ísafjarðardjúpi þarf 15 milljónir laxa í kvíarnar. Það sleppur alltaf eitthvað. Reynslan frá Noregi bendir til að það sé einn lax á móti hverju tonni í eldi.

Eldismenn segja að það sé minna. En ef það væri einn fiskur á móti tonni má búast við að það sleppi 30 þúsund laxar í Ísafjarðardjúpi. Til samanburðar má geta þess að laxastofnarnir í Djúpinu telja 150 til 500 fiska hver stofn. Það segir sig sjálft að þeir myndu ekki þola þá blöndun sem því fylgdi. Laxinn missir þá erfðaeiginleika sem honum eru nauðsynlegir til að halda lífi í sínu náttúrulega umhverfi. Við teljum að þetta varði við náttúruverndarlög. Engum sé heimilt að valda slíkum skaða á náttúrunni,“ segir Jón Helgi.

Hann telur að reynslan frá Noregi sýni að staðlar sem notaðir eru við búnað þar og hér komi ekki í veg fyrir slysasleppingar. „Ég sé ekki aðra lausn en að nota geldan lax við eldið,“ segir hann.

Enginn íslenskur lax eftir

Þótt framleiðsla í laxeldi sé ekki mikil hér á landi enn sem komið er hafa fiskeldisfyrirtækin áform um mjög mikla aukningu á næstu árum. Gangi öll áform eftir gæti framleiðslan orðið hátt í 200 þúsund tonn á ári eftir nokkur ár. Jón Helgi segir að þá yrðu 90 milljón laxar í kvíunum. Nefnir til samanburðar að í hrygningarstofni íslenska laxastofnsins séu að meðaltali 35 þúsund fiskar. „Við teljum þetta allt of mikla áhættu, stofninn þoli þetta ekki. Enginn íslenskur lax yrði eftir í ánum eftir nokkra áratugi, aðeins norskur. Um þetta standa átökin,“ segir Jón Helgi.

„Ég tel það reyndar,“ segir hann spurður hvort hægt sé að snúa þróuninni við úr þessu. „Ef haldið yrði áfram með það eldi sem þegar er búið að leyfa og það kæmi í ljós að það hefði þau áhrif sem við teljum yrði að endurmeta stöðuna og snúa við. Það er óviðunandi að atvinnustarfsemi hafi þessi umhverfisáhrif.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert