Gunnar Smári yfirgefur Fréttatímann

Gunnar Smári Egilsson hefur nú sagt skilið við Fréttatímann og …
Gunnar Smári Egilsson hefur nú sagt skilið við Fréttatímann og ætlar að einbeita sér að Sósíalistaflokknum. Eggert Jóhannesson

Gunnar Smári Egilsson, einn ritstjóra Fréttatímans, tilkynnti í Facebook-færslu nú í kvöld að hann hafi sagt skilið við blaðið og kanni nú möguleika á stofnun Sósíalistaflokks Íslands.

Í færslunni segir að starfsfólk Fréttatímans berjist nú við að halda áfram útgáfu blaðsins. „Tilraunir til að tryggja undirstöður þess á undanförnum vikum og mánuðum leiddu til þess í síðustu viku að ég hætti afskiptum af blaðinu og félaginu meðan lánardrottnar, aðrir hluthafar, starfsfólk og mögulegir kaupendur leituðu nýrra lausna. Sú ráðstöfun var talin auka líkur á góðri lausn og var mér að sársaukalausu.“

Hann hafi undanfarið kannað möguleika á stofnun Sósíalistaflokks Íslands. „Að sumu leyti vegna þess að runnið hefur upp fyrir mér að þótt fjölmiðlar séu óendanlega mikilvægir samfélaginu er það sorglega lýjandi hversu litlu þeir fá áorkað. Það kom ágætlega í ljós í síðustu viku þegar valdamesta fólk landsins þóttist óendanlega hissa á hversu óheiðarlega var staðið að kaupum á Búnaðarbankanum þótt auðskiljanlegar frásagnir af þessari fléttu hefðu verið birtar fyrir tólf árum.“

Meira þurfi til að að breyta íslensku samfélagi, en að segja fréttir af því hversu gallað það er. „Það er ekki nóg að reyna að hafa áhrif á umræðuna, við verðum að umbreyta uppbyggingu samfélagsins. Það er ekki nóg að benda á hversu spillt valdastéttin er og hvernig hún færir eigur almennings til sín og sinna, við verðum að taka völdin af þessu fólki,“ segir Gunnar Smári.

Hann óski Fréttatímanum langra lífdaga og þakki starfsfólkinu ánægjulega samfylgd. „Sjálfur mun ég halda áfram að stunda mína blaðamennsku, en þá í tengslum við starf Sósíalistaflokks Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert