Hátt í 500 íbúðir í smíðum í miðbænum

Nýlendureiturinn.
Nýlendureiturinn. Mynd/Reykjavíkurborg

Í miðborg Reykjavíkur eru 653 íbúðir annaðhvort í byggingu eða á teikniborðinu, samkvæmt drögum að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar.

Langflestar íbúðir eru á byggingarsvæðum á framkvæmdastigi, eða 478 talsins.

Á Hljómalindarreitnum, milli Laugavegar og Hverfisgötu, verða 35 íbúðir og verður meðalstærð þeirra 60 fermetrar. Fyrir á reitnum er 112 herbergja lúxushótel

Á Hverfisgötu 94 til 96, eða Laugavegsreitnum, verða byggðar 60 íbúðir og verður meðalstærðin 100 fermetrar.

Reiturinn Hafnartorg-Austurhöfn býður upp á 178 íbúðir. Meðalstærð þeirra verður 140 fermetrar.

Hafnartorg.
Hafnartorg. Mynd/PK arki­tekt­ar

Alls verða 77 íbúðir á Brynjureitnum og verður meðalstærðin 65 fermetrar. Á Frakkastígsreitnum verða 68 íbúðir með 80 fermetra meðalstærð.

Við Tryggvagötu 13 verða 40 íbúðir og þar verður meðalstærð íbúða 86 fermetrar. Þá verða 20 íbúðir á Nýlendureitnum svokallaða og verður meðalstærð þeirra 70 fermetrar. Þar verður hlutfall húnæðisfélaga 100%.

Tryggvagata 13.
Tryggvagata 13. Mynd/Reykjavíkurborg

Íbúðir í miðborginni í samþykktu deiliskipulagi eru 175 talsins, allar á Barónsreitnum. Þar verður meðalstærðin 109 fermetrar.

Einn reitur er í formlegu skipulagsferli, eða Frakkastígur-Skúlagata, en ekkert kemur fram í húsnæðisáætluninni um fjölda íbúða þar.

Laugavegsreitur er nær á myndinni, til suðurs, en Barónsreitur, fjær, …
Laugavegsreitur er nær á myndinni, til suðurs, en Barónsreitur, fjær, til norðurs. Teikning/Tark arkitektar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert