Nýju göngin verða innar í Hvalfirði

Ætlun hönnuðanna var að op ganganna líktist að forminu til …
Ætlun hönnuðanna var að op ganganna líktist að forminu til hvalsgini sem stingur sér upp úr sjónum. Op nýja ganganna verða eins. Spölur

Samkvæmt samkomulagi við Vegagerðina frá árinu 2007 tók Spölur ehf. að sér það verkefni að annast undirbúningsaðgerðir vegna nýrra Hvalfjarðarganga, sem grafin yrðu við hlið núverandi ganga, innar í firðinum. Undirbúningsskýrslunni var skilað í júlí 2008. Þetta var rétt fyrir bankahrunið og öllum áformum um ný göng var síðan slegið á frest. Eins og fram hefur komið í fréttum er umferðin um núverandi göng orðin svo mikil að göngin eru komin að þolmörkum.

Í skýrslunni er ráðgert að í hinum nýju göngum yrðu tvær akreinar. Um þau myndi fara umferð í norðurátt en umferð í suðurátt færi um núverandi göng. Forsenda nýrra ganga er tvöföldun Vesturlandsvegar í báðar áttir frá göngunum.

Umfangsmiklar jarðfræðirannsóknir voru gerðar í febrúar-apríl 2008 með borunum upp úr neðsta hluta ganganna. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti í heimum sem slíkum aðferðum var beitt. Sýndu þau gott og traust berg, sem nær allt að 8 metrum hærra upp en áætlað hafði verið við undirbúning og gerð Hvalfjarðarganga 1993-1995. Berglög reyndust sambærileg við berglög sem núverandi göng liggja í. Berg við Hvalfjörð er almennt talið þéttara en gengur og gerist í berggrunni Íslands.

Í ljósi niðurstaðna borana og hversu vel gekk að grafa göng I er af bergtæknilegum ástæðum talið unnt að botn nýrra ganga verði 15 metrum hærri en botn núverandi ganga, sem er 160 metrum undir sjávarmáli þar sem hann er dýpstur.

Bergveggur milli eldri og nýrri ganga verður að jafnaði 25 metrar. Það er heldur meira en haft er erlendis þegar grafin eru tvenn samhliða göng. Nú stendur hins vegar til að grafa göng samhliða öðrum sem eru í rekstri og því er bilið haft meira.

Þá leggja sérfræðingar til að bergþekja verði að lágmarki 30 metra þykk yfir lofti ganga. Í núverandi göngum er bergþekja 43 metrar og því gefur þessi breyting möguleika á að hækka botn ganganna.

Ný göng verða aðeins lengri en núverandi göng, eða 5.995 metrar á móti 5.762 metrum.

Þvergöng verða með 250 metra millibili og munu þjóna sem flóttaleiðir og brunahólf fyrir þá sem yfirgefa ökutæki í göngunum í neyðartilfellum. Þvergöng flóttaleiða verður ekki unnt að sprengja að fullu í gegn með núverandi göng í rekstri, svo skila verður eftir haft sem sprengja verður eftir að umferð hefur verið sett á nýju göngin. Hins vegar munu tvenn tengigöng tengjast útskotum í núverandi göngum og verður unnt að sprengja þau samhliða gerð ganga II.

Það var niðurstaða Skipulagsstofnunar sem dagsett var 4. desember 2007 að framkvæmdir við ný gögn væru ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Þessi mynd sýnir neyðargöng á milli tveggja ganga í Södra …
Þessi mynd sýnir neyðargöng á milli tveggja ganga í Södra Länken í Stokkhólmi. Hún gefur mynd af því hvernig göngin hér geta orðið.

Hvalsgin að forminu til

Fram kemur í skýrslunni að Magnús Ólafsson arkitekt hafi hannað form núverandi vegskála eftir tillögu og hugmynd Anders Beitnes. Ætlun þeirra var að opið líktist að forminu til hvalsgini sem stingur sér upp úr sjónum. Þetta útlit þykir vel heppnað og verður útlit nýrra vegskála með sama formi og hinna fyrri.

Gera þarf ráð fyrir því að grípa verði til bergþéttinga á köflum í nýjum göngum, samfara gangagreftri, til að takmarka innrennsli vatns í göngin. Í göngum I varð að stöðva gangagerðina 33 sinnum meðan berg var þétt. Alls var dælt um 365 tonnum af sementi í bergþéttingarholur eða að meðaltali 66 kílóum fyrir hvern metra ganga. Fyrir göng II er gert ráð fyrir sambærilegum fjölda aðgerða.

Skýrsluna unnu Hnit verkfræðistofa, Jarðfræðistofan, Mannvit verkfræðistofa og RTS verkfræðistofa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert