Felur í sér „algert taktleysi“

Malín Brand í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Malín Brand í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrstu viðbrögð mín eru þau að það stuðar mig hversu dómurinn er þungur,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Malínar Brand sem var í morgun ásamt systur hennar Hlín Einarsdóttur dæmd í 12 mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundna, vegna fjárkúgunar. Hins vegar ætti hann eftir að kynna sér betur forsendur dómsins.

Hólmgeir vísar þar til dóma í öðrum fjárkúgunarmálum. Til að mynda dóms Héraðsdóms Vestfjarða frá árinu 2014 þar sem karlmaður fékk sama dóm fyrir að reyna að kúga 100 milljónir króna af hjónum á Ísafirði bréfleiðis og að hóta þeim ofbeldi með smáskilaboðum með það fyrir augum. Maðurinn hafi ennfremur neitað sekt fyrir dómi. 

Frétt mbl.is: Malín og Hlín dæmdar sekar

„Þarna var um miklu hærri upphæð að ræða og beint líkamlegt ofbeldi gagnvart fjölskyldu og vinum og vandamönnum hennar. Mér finnst sá dómur samanborinn við það mál sem hér er til umfjöllunar fela í sér algert taktleysi,“ segir Hólmgeir. Hins vegar eigi hann eftir að fara betur yfir dóminn og þær forsendur sem dómarinn byggi niðurstöðu sína á.

Spurður hvort hann hafi rætt við Malín eftir dóminn segist Hólmgeir strax hafa haft samband við hana en hvorug systranna var viðstödd uppkvaðningu dómsins. Aðspurður segir hann viðbrögð hennar á hliðstæðum nótum og hans. Þetta sé meira en hún hafi vænst. Spurður hver eðlilega niðurstaða hefði verið að hans mati segist hann ekki vilja tjá sig um það. En vissulega mun vægari dómur.

Hvað framhaldið varðar segir Hólmgeir að hann muni fara yfir dóminn með skjólstæðingi sínum á næstu dögum í rólegheitum og síðan verði tekin ákvörðun um það hvort áfrýjað verði til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert