Nonni, þetta er ekki dót!

Jón Arnarson drónaverkfræðingur.
Jón Arnarson drónaverkfræðingur. Árni Sæberg

Jón H. Arnarson er fyrsti Íslendingurinn sem nælir sér í meistaragráðu í drónaverkfræði og býr auk þess að réttindum til að fljúga ómönnuðu flugfartæki, allt að 20 kg, í atvinnuskyni. Hann vill starfa hér heima í framtíðinni en til þess þarf helst að auka notagildi græjunnar. Og hvað ætli takmarki það notagildi? Því er Jón fljótur að svara: Aðeins ímyndunarafl okkar mannanna!

Hann hefur fengið skömm í hattinn fyrir að kalla þetta „dót“; allt frá litlum ómerkilegum drónum upp í fjögurra milljóna króna vandaða dróna með allt að tíu milljóna króna myndavélabúnað hangandi niður úr sér. „Nonni, þetta er ekki dót!“ segja menn með þjósti. Hann lætur sér þó slíkar umvandanir í léttu rúmi liggja, af skiljanlegum ástæðum, þegar maður hefur heyrt rökin: „Ef ég hætti að hugsa um þetta sem dót og fer að velta því fyrir mér hversu dýrt það er myndi ég örugglega stressast allur upp og gera tóma vitleysu. Sjálfstraustið er snar þáttur í þessu og menn verða að þekkja sinn stressfaktor og einbeita sér að sinni kunnáttu meðan þeir eru að fljúga drónum. Þess vegna flýg ég öllu þessu dóti með sama hugarfarinu.“

Jón smíðar og flýgur drónum af öllum stærðum og gerðum.
Jón smíðar og flýgur drónum af öllum stærðum og gerðum. Árni Sæberg

Jóni þykir eðlilegt að gera þá kröfu að fólk hafi hlotið ákveðna grunnþjálfun áður en það fer að fljúga drónum, rétt eins og með bíla. Engum dytti í hug að setja óvana manneskju undir stýri á bíl án leiðbeinanda. Þá sé það útbreiddur misskilningur að fólk með flugmannspróf sé hæfara en aðrir til að fljúga dróna. Þó svo að þeir þekki reglur lofthelginnar betur þá er það ekki sama og kunnátta á vélbúnað og stjórntæki drónans. „Spöðunum á þessum tækjum má líkja við átta til sextán hnífa og ég hef fengið svona spaða í fingurinn – og hann stoppaði á beini,“ rifjar Jón upp.

Einbeiting og næði er algjört lykilatriði þegar dróna er flogið og sjálfur segir Jón bara eina eða í mesta lagi tvær manneskjur mega tala við sig meðan á flugi stendur. „Annars hugsanlega setjum við tækið og jafnvel fólk í hættu.“

Hann segir líka brýnt að til sé plan B komi eitthvað fyrir þann sem stýrir tækinu svo hann geti ekki sinnt því lengur. „Við þau skilyrði er best að segja þeim sem næst stendur að slökkva á fjarstýringunni ef eitthvað gerist, en þá kemur dróninn beint til baka og lendir.“

Nánar er rætt við Jón í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Jón á þjónustuverkstæði Dronefly, þar sem hann starfar.
Jón á þjónustuverkstæði Dronefly, þar sem hann starfar. Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert