Það er skrýtin tík, sjólitík!

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. Eggert Jóhannesson

Þónokkrir einstaklingar sem sitja á hinu háa Alþingi Íslendinga búa að bakgrunni í sjónvarpi og hefur Vinstrihreyfingin - grænt framboð vinningin yfir aðra flokka; fjögur í þeim þingflokki urðu þekkt fyrir störf sín í sjónvarpi áður en þau settust á þing. 

Formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, birtist þjóðinni sem frægt er upphaflega sem stigavörður í spurningaþættinum Gettu betur! Annar stigavörður úr Gettu betur! tengist þinginu líka, Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Til að fyrirbyggja allan misskilning er hún þó ekki skráð í VG.

Forveri Katrínar á formannsstóli, Steingrímur J. Sigfússon, var í eina tíð íþróttafréttamaður á RÚV og gaf Samúel Erni Erlingssyni ekki þumlung eftir þegar kom að umfjöllun um þá göfugu íþrótt blak. 

Er ekki orðið tímabært að fá nýjan íþróttafréttamann á þing? Gummi Ben flygi sjálfsagt inn og yrði þar með fyrsti Þórsari á Alþingi, alltént síðan Þór Saari var þar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Eggert Jóhannesson

Í þingflokki VG má einnig finna Ara Trausta Guðmundsson, sem lengi las veðurfréttir á Stöð 2 og hefur að auki rýnt í jarðvísindi í ýmsum þáttum í sjónvarpi, og Rósu Björk Brynjólfsdóttur, sem til skamms tíma starfaði á fréttastofu Sjónvarps. Þá var Rósa Björk líka um skeið fréttaritstjóri hjá sjónvarpsstöðinni France 24.

Þá er enn einn fyrrverandi sjónvarpsmaðurinn nýhættur á þingi fyrir flokkinn, Ögmundur Jónasson.

Sjónvarpsvæn, vinstri græn.

Ef til vill eru einhverjir búnir að gleyma því en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var einu sinni fréttamaður á RÚV, auk þess að leysa af í Kastljósinu, sem síðar reyndist örlagavaldur í hans lífi. Það varð svo aftur til þess að fréttaþulir þessa heims hafa ekki komist í hann krappari en nafn ráðherrans vafðist með eftirminnilegum hætti fyrir þeim: „Siggmúnter Deivídd Gúnnlágssn.“

Til allrar hamingju var þá búið að slökkva glæðurnar í Eyjafjallajökli.

Framganga Guðna Th. Jóhannessonar sem álitsgjafi í sama miðli réði miklu um það að þjóðin valdi hann til að gegna hinu háa embætti á liðnu ári. Um það verður varla deilt.

Þrír af fimm forverum hans komu einnig við sögu sjónvarps áður en þeir tóku við embætti. Ólafur Ragnar Grímsson var sem ungur maður skeleggur stjórnandi spjallþátta, einkum um stjórnmál, og Vigdís Finnbogadóttir kenndi þjóðinni frönsku á skjánum. Því miður hafa þeir þættir ekki varðveist. Þá naut Kristján Eldjárn vinsælda og virðingar vegna þátta sinna í árdaga sjónvarps um fornar minjar og muni í vörslu Þjóðminjasafnsins. Eins og hjá Guðna er almennt álitið að framganga Kristjáns í sjónvarpi hafi gert gæfumuninn við kjör hans.

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. Eggert Jóhannesson

Sjónvarpsfólk hefur líka látið að sér kveða á vettvangi sveitarstjórna. Þannig eru tveir fyrrverandi borgarstjórar í Reykjavík með traustan bakgrunn í sjónvarpi; Jón Gnarr, sem hafði lengi komið að gamanþáttagerð áður en hann söðlaði um og sneri sér að stjórnmálum, og Markús Örn Antonsson, sem var fréttamaður í Sjónvarpinu á sokkabandsárum stofnunarinnar, auk þess að stýra henni síðar í tvígang.

Nánar er fjallað um tengsl sjónvarps og pólitíkur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert