Fóru úr 29 kg af pappír á mann í 7,6

Flokkun á rusli er ein leið til að draga úr …
Flokkun á rusli er ein leið til að draga úr úrgangi. Helga J. Bjarnadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs EFLU, segir fyrirtækið setja sér stíf markmið og það sé áskorun að halda áfram á þeirri vegferð. mbl.is/Kristinn

„Ég man að fyrir um tíu árum vorum við að nota að meðaltali um 29 kg af pappír á hvern starfsmann á ári. Í fyrra var þessi tala komin niður í 7,6 kg, þannig að það hafa umtalsverðar breytingar átt sér stað,“ segir Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs á verkfræðistofunni EFLU.

Fyrirtækið hefur náð að minnka pappírsnotkun margfalt yfir nokkurra ára tímabil með því að prenta báðum megin á öll blöð og taka allar prentskipanir í gegnum ský. Það felur í sér að ekki dugar að senda prentskipunina úr tölvunni, blaðið prentast ekki út fyrr en sá sem ýtti á skipunina gengur að prentaranum og velur prentun á viðkomandi skjali. „Það er alltaf mikið um að fólk prenti eitthvað út og gleymi því svo á prentaranum. Með þessum hætti þarf maður að standa upp og sækja blaðið og það hefur áhrif,“ útskýrir Helga. Einnig eru starfsmenn hvattir til að hugleiða hvort þeir virkilega þurfi að prenta.

EFLA, var eitt þeirra 104 fyrirtækja og stofnana sem undirrituðu loftslagsyfirlýsingu í samstarfi við Festu miðstöð um sam­fé­lags­ábyrgð. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti full­trúa lofts­lags­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna yfirlýsinguna í desember 2015 þegar Parísarsamkomulagið var undirritað. Þar kom fram að fyr­ir­tæk­in skuld­byndu sig til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda, minnka úr­gang og mæla ár­ang­ur til reglu­legr­ar birt­ing­ar.

Pappírinn er því fjarri því að vera eini þátturinn í starfi EFLU, þar sem horft er til umhverfivitundar þó að vissulega hafi það sín áhrif að draga úr pappírsnotkun um ¾. Og líkt og segir í yfirlýsingunni er árangurinn mældur og birtur reglulega á vef fyrirtækisins.

Baldur Gunnlaugsson garðyrkjufræðingur kann vel á moltugerðina hjá EFLU. Starfsmenn …
Baldur Gunnlaugsson garðyrkjufræðingur kann vel á moltugerðina hjá EFLU. Starfsmenn fá svo moltuna sem áburð á garða sína. mbl.is/Kristinn

Stefna að því að auka endurvinnsluhlutfall upp í 90%

Umhverfisvitundin á sér enda langa sögu á þessum rúmlega 300 manna vinnustað, þar sem settar eru metnaðarfullar áætlanir í umhverfismálum ár hvert. Sumar þeirra ganga eftir, en aðrar ekki og þá er bara reynt að gera betur næst.

Árið 2015 setti EFLA sér til að mynda það markmið að 80 % af úrganginum sem félli til færi í endurvinnslu. Endanleg tala það árið varð 70% og í fyrra var markið sett á 90%.  Það ár náðist endurvinnsluhlutfallið 80%, sem telst væntanlega ansi gott á mælikvarða flestra íslenskra fyrirtækja. „Við setjum okkur stíf markmið og það er áskorun að halda áfram á þessari vegferð,“ segir Helga.

Meðal þess sem gert er til að draga úr úrgangslosun er að reyna að sjá til þess að allt komist í endurvinnslu sem þangað á að fara. Eins eru stunduð vistvæn innkaup og svo er allur lífrænn úrgangur flokkaður frá bæði í eldhúsi og kaffikrókum.

Starfsmenn nota moltuna í görðum sínum

„Starfsmenn eru að flokka vel í daglegum rekstri,“ segir Helga, en kaffikorgur, ávaxtahýði og annar lífrænn úrgangur úr kaffikrókunum er moltaður hjá fyrirtækinu sjálfu, á meðan að lífrænn úrgangur úr eldhúsi fer í moltun hjá endurvinnslufyrirtækinu. „Síðan gefum við starfsmönnum þennan fína áburð til að nota í görðum sínum. Til þess notum við plastfötur, t.d. 10 lítra plastfötur utan af fetaosti sem falla til í eldhúsinu. Með þessu náum við líka að endurnýta föturnar, sem starfsmenn fylla af moltu sem þeir fara með heim í garða sína.“

Guðni Páll Pálsson, verkfræðingur kemur alltaf „grænn“ til vinnu. Hann …
Guðni Páll Pálsson, verkfræðingur kemur alltaf „grænn“ til vinnu. Hann stendur einmitt á myndinni við kortalesarann þar starfsmenn merkja við þegar þeir mæta með umhverfisvænum hætti. mbl.is/Kristinn



Þó að lífræni úrgangurinn nýtist vel með þessum hætti, er einnig reynt að draga úr matarsóun. „Við fengum fyrirlestur um matarsóun og höfum í kjölfar þess reynt að draga enn frekar úr henni. Kokkurinn okkur er t.d. duglegur að nýta afgangana í nýja rétti, en það er alltaf erfitt að áætla nákvæmlega fjöldann sem er í mat á svona fjölmennum vinnustað og því er sá matur sem er afgangs nú gefinn til Samhjálpar og nýtist þannig enn betur.“

Helga segir það óneitanlega vekja starfsfólk til umhugsunar að vinna á vinnustað þar sem umhverfismálin eru höfð í öndvegi. „Þetta hefur smitandi áhrif og fólki finnst þá allt í einu orðið óþægilegt að flokka ekki heima segir hún,“ segir hún. „Síðan á fólk börn og þau eru að læra þetta í skólanum og það hjálpar líka.“

Hvattir til að koma grænir til vinnu

Vel er einnig fylgst með samgöngumálum, þannig er gerð könnun á ferðavenjum starfsmanna á tveggja ára fresti. Þá er sérstakt hvatakerfi í gangi og fólk skráir sig rafrænt inn þegar það kemur „grænt“ til vinnu, þ.e. með öðrum samgöngumáta en einkabílnum.

„Þeir sem koma a.m.k. þrjá daga af fimm til vinnu með umhverfisvænum hætti fá samgöngustyrk,“ og við bjóðum m.a. upp á góða hjólageymslu og sturtuaðstöðu segir Helga.

Vel er fylgst með hitastiginu við moltugerðina.
Vel er fylgst með hitastiginu við moltugerðina. mbl.is/Kristinn

Eins er fylgst grannt með þeirri losun koltvíoxíðs sem á sér stað vegna flug- og akstursferða sem tengjast vinnunni.  „Þegar við kaupum eða leigjum bílaá horfum við til þess hversu sparneytnir þeir eru. Svo erum við núna komin með einn rafmagnsbíl og þeim mun sjálfsagt fjölga á næstu árum.“ Helga segir eitt af því jákvæða við þetta vera að þá kynnist starfsmenn því hvernig sé að aka rafmagnsbíl, sem hvetji þá sjálfa til að hugleiða þann kost við næstu bílakaup.

Kolefnissporið stækkaði

Akstur og flugferðir innanlands og erlendis eru meginuppsprettur kolefnisspors EFLU. Kolefnisspor EFLU dróst verulega saman milli áranna 2014 og 2015 aðallega vegna færri erlendra flugferða sem m.a. má rekja meiri notkunar fjarfundarbúnaðar og fjölgunar starfsmanna í starfsstöðvum erlendis.

2016, fjölgaði flugferðunum innanlands hins vegar töluvert og kolefnissporið stækkaði. Kolefnissporið er þannig mjög háð því hvar og hvernig verkefni við erum að vinna á hverjum tíma, sum verkefni eru utan þéttbýlis,“ segir Helga og bendir á að EFLA hafi komið að framkvæmdum á Þeistareykjum og Bakka við Húsavík á síðasta ári.  

„Innanlandsflugið hefur aukist við þessa vinnu,“ segir hún. „Við erum með starfsstöðvar á Akureyri, Húsavík, Egilstöðum og Reyðarfirði og reynum að nota fólkið sem þar er sem mest, en svo eru ákveðnir sérfræðingar sem þurfa að fara á staðinn t.d. í eftirlitsferðir. Þegar unnið er að verkefnum fjarri starfsstöðvunum eykst eldsneytisnotkun nefnilega líka.

Kolefnisjafna bílana

„Það gengur vel að draga úr pappírsnotkun, minnka úrgang og auka endurvinnsluna, en þetta er nokkuð sem við ráðum illa við,“ segir Helga.

EFLA er þó með samning við Kolvið og kolefnisjafnar alla bílanotkun EFLU bíla og bílaleigubíla. „Að draga úr eldsneytisnotkun og úrgangi er áskorun, en þetta er eitthvað sem við erum meðvituð um og höldum áfram að leita leiða til að draga úr og það er hægt ef maður hugsar út í það.“ Nú svo má ekki gleyma stóra málinu hjá okkur en það er að vinna með  viðskiptavinum okkar að góðum lausnum þar sem hugað er að því að draga úr losun á neikvæðum umhverfisáhrifum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert