Hinn skipverjinn laus allra mála

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn fór fyrir rannsókn málsins.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn fór fyrir rannsókn málsins. mbl.is/Golli

Skipverjinn sem var handtekinn í tengslum við dauða Birnu Brjánsdóttur en síðan sleppt er laus allra mála. Vitað er að hann fór heim til Grænlands en Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segist búast við því að hann verði kallaður hingað til lands til að bera vitni.

Thom­as Møller Ol­sen, einnig skipverji á grænlenska togaranum Polar Nanoq, hefur verið ákærður fyrir að bana Birnu en hann er sakaður um að hafa beitt hana ofbeldi og kastaði henni í sjó eða vatn, þar sem hún drukknaði.

Olsen hefur einnig verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Hann hefur játað sök hvað það varðar en neitar því að hafa banað Birnu.

Þegar mbl.is náði sambandi við Grím seinnipart dags sagðist hann ekki getað tjáð sig um það hverju Olsen hefði svarað spurður um ferðir og athafnir sínar og Birnu eftir að hinn skipverjinn yfirgaf Kia Rio-bifreiðina þar sem ofbeldið er talið hafa átt sér stað.

-Varðandi hinn skipverjann, sem var sleppt úr haldi, er hann laus allra mála?

„Eftir að ákæran er gefin út fyrir rúmri viku síðan þá er rannsókn á hendur honum hætt og hann er alveg laus, hann er ekki grunaður lengur,“ svaraði Grímur.

-Er búið að útiloka að hann hafi vitað hvað ætti eftir að gerast?

„Það er þannig að þegar saksóknari tekur ákvörðun þá þarf hann að telja meiri líkur en minni á því að sá sem hann ákærir verði sakfelldur fyrir refsiverða háttsemi. Í tilviki mannsins þá telur saksóknari ekki meiri líkur en minni á að hann verði sakfelldur.“

-Verður hann kallaður til landsins til að bera vitni?

„Það er ekki mitt að segja heldur saksóknara en maður myndi búast við því.“

-Hefur ákærði gefið útskýringar á atburðarásinni?

„Á rannsóknarstiginu fór ég aldrei neitt út í það hvað kom fram þannig að það lá ekki fyrir og liggur ekki fyrir enn.“

-Er ákæruvaldið með gott mál í höndunum ef horft er á sönnunargögn og framburð?

„Þessu vil ég ekki svara með já eða nei en niðurstaða rannsóknarinnar var sú að senda málið til héraðssaksóknara og niðurstaða héraðssaksóknara er að ákæra í málinu. Maður getur túlkað það þannig að þar með telji saksóknari meiri líkur en minni á því að viðkomandi verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir,“ svarar Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert