Á sá fund sem finnur?

Seabed Constructor í Reykjavíkurhöfn.
Seabed Constructor í Reykjavíkurhöfn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ef þetta er í landhelginni getur ríkið sett þannig lagaramma að það sé eigandi ef enginn annar gerir tilkall. En ef þetta er fyrir utan landhelgina þá á sá fund sem finnur,“ segir Bjarni Már Magnússon, doktor í hafrétti við Háskólann í Reykjavík. 

Greint hef­ur verið frá því að norska rann­sókn­ar­skip­inu Sea­bed Constructor hafi verið stefnt til hafn­ar vegna gruns um ólög­leg­ar rann­sókn­ir. Það hef­ur und­an­farna daga haldið sig á svæðinu þar sem þýska flutn­inga­skipið Mind­en sökk í seinni heims­styrj­öld­inni.

Lögregla hefur verið að yfirheyra skipverja í dag en Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn vildi í kvöld ekki gefa upp hvort eitthvað hefði komið út úr yfirheyrslunum. 

Spurningar hafa vaknað um valdheimildir íslenska ríkisins; hvort rannsóknarskipið þurfi yfirhöfuð leyfi til að stunda rannsóknir á flakinu. 

„Fyrir tilteknar rannsóknir þarf leyfi og þá er spurning hvort þetta skip þurfi leyfi eða ekki. Ríki geta sett ákveðinn regluramma yfir hafrannsóknir; það er fjallað um þetta í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna en þar er hugtakið ekki skilgreint nákvæmlega. Hvað varðar rannsóknir í efnahagslögsögu, fyrir utan landhelgina, þá er almennt talið að hafrannsóknir þurfi að snúa að umhverfi hafsins. Miðað við það sem lögmaður fyrirtækisins segir þá snúast aðgerðirnar ekki um umhverfi hafsins heldur um að ná einhverju úr skipinu,“ segir Bjarni Már og vísar þar til Minden.

Hann segir að engu skipti hvort flakið teljist til fornminja eða ekki. 

„Sumum hefur dottið í hug að flakið flokkist undir fornminjar en eins og staðan er núna þá nær lögsaga Íslands yfir fornminjar á hafsbotni ekki lengra en tólf sjómílur. Nú er verið að setja sérstök lög sem innihalda ákvæði um fornminjar í svokölluðu aðlægu belti sem færir lögsöguna út um 24 sjómílur en þegar þú ert kominn 120 sjómílur fyrir utan þá lítur þetta þannig út að íslenska ríkið hafi ekki lögsögu yfir fornminjum.“

Lögmætar aðgerðir?

Bjarni útilokar ekki að íslenska ríkið gæti verið skaðbótaskylt ef aðgerðir lögreglu og Landhelgisgæslunnar reynast ólögmætar. 

„Það er alveg eðlilegt að kanna hvað er verið að gera en svo er spurning hversu langt á að ganga. Í Polar Nanoq virtust fulltrúar íslenskra stjórnvalda ekki vera með lagarammann varðandi efnahagslögsöguna á hreinu miðað við yfirlýsingar í fjölmiðlum og nú kemur aftur mál sem snertir valdheimildir íslenska ríkisins í efnahagslögsögunni.“

Spurning um tilkall

Fréttaflutningur af málinu hefur leitt til þess að margir hafa velt fyrir sér hvað leynist í flakinu. Bjarni segir að ef verðmæti finnast geti rannsóknarskipið hirt þau nema því aðeins að fyrri eigandi gerði tilkall. 

„Það vantar fullt af upplýsingum en það er tvennt í þessu; ef það er einhver eigandi þá gæti fyrirtækið farið fram á björgunarlaun fyrir að hafa náð verðmætum af hafsbotni. Svo er hitt; ef það er enginn eigandi þá er lykilatriði hvort flakið finnst innan tólf sjómílna landhelgi eða fyrir utan. Ef þetta er í landhelginni getur ríkið sett þannig lagaramma að það sé eigandi ef enginn annar gerir tilkall. En ef þetta er fyrir utan þá á sá fund sem finnur,“ segir Bjarni.

Spurður hvort þýska ríkið sé réttmætur eigandi svarar hann að svo geti verið. „En ef það er enginn eigandi þá hefði Ísland getað farið þangað og tekið þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert