Ungu fólki þykir það út undan

Frá ráðstefnunni.
Frá ráðstefnunni. Ljósmynd/UMFÍ

Ungu fólki finnst það hafa verið skilið út undan og að ekki sé hlustað á það. Það var ekki haft samráð við það þegar ákveðið var að ráðast í stórvægilegar breytingar á menntakerfinu; stytta nám til stúdentsprófs og taka í notkun nýtt einkunnakerfi í samræmdum prófum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ungmennafélagi Íslands, sem stóð fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði dagana 5.-7. apríl. Í tilkynningunni segir m.a. að breytingarnar hafi haft mikil áhrif, m.a. neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu ungmenna.

„Ungu fólki finnst það hafa verið skilið út undan og ekki hlustað á það. Því finnst þörf á viðhorfsbreytingu innan stjórnsýslunnar svo ráðamenn og sveitarstjórnarfólk hlusti betur á ungt fólk á Íslandi, bæði þarfir og kröfur. Ungmennin óska líka eftir því að fulltrúar ungmennaráða fái að sitja fundi flestra nefnda innan sveitarfélaga,“ segir í tilkynningunni.

„Við teljum að æskilegt sé að breyta lögum og í leiðinni samræma reglur ungmennaráða um land allt,“ segir í ályktun Ungmennaráðs UMFÍ, sem vill að kosningaaldurinn verði lækkaður úr 18 árum í 16 ár. „Lagt er til að breytingarnar verði í þrepum og kosningaaldur lækkaður fyrst í sveitarstjórnarkosningum en síðar í kosningum til Alþingis,“ segir í tilkynningunni.

Þátttakendur ráðstefnunnar voru um 100 ungmenni frá ungmennaráðum félagasamtaka og sveitarfélaga.

Nánar um málið á heimasíðu UMFÍ.

Frá ráðstefnunni.
Frá ráðstefnunni. Ljósmynd/UMFÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert