Veittist að Birnu í bílnum

Thom­as Møller Ol­sen er talinn hafa ráðist gegn Birnu með …
Thom­as Møller Ol­sen er talinn hafa ráðist gegn Birnu með offorsi. mbl.is/Ófeigur

Þing­fest­ing í máli ákæru­valds­ins gegn Thom­as Møller Ol­sen, sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur, fer fram í Héraðsdómi Reykja­ness á morgun. 

Í ákærunni sem hefur verið birt fjölmiðlum kemur fram að Olsen hafi veist að Birnu með ofbeldi. Er hann sagður hafa slegið hana ítrekað í andlit og höfuð, „tekið hana kverkataki og hert kröftuglega að hálsi hennar.“

Atburðurinn á að hafa átt sér stað annaðhvort þegar rauðu Kia Rio-bifreiðinni var lagt í nágrenni flotkvíarinnar við Hafnarfjarðarhöfn, eða á öðrum óþekktum stað.

Að því loknu á Olsen að hafa varpað Birnu í sjó eða vatn þar sem hún drukknaði. 

Lík Birnu fannst í fjörunni neðan við Selvogsvita 22. janúar eftir umfangsmikla leit björgunarsveita og hafði hennar þá verið saknað í rúma viku.

Ákærður fyrir stórfellt fíkniefnabrot

Olsen er einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, en hann á að hafa reynt að smygla rúmlega 23 kg af kannabisefnum, sem hann hafði komið fyrir í káetu sinni um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq.

Í ákærunni er einnig lögð fram einkaréttarkrafa af hendi foreldra Birnu og hljómar hún upp á 10,5 milljónir kr. í miskabætur fyrir hvort þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert