Björgunarsveitir endurnýja búnað

Öflugur tækjabúnaður er björgunarsveitarfólki mikilvægur og á árunum eftir hrun hægði á endurnýjun tækjakosts en nú horfir til betri vegar. Björgunarsveitin Ársæll er að taka glæsilegan bíl í notkun sem er mikið notaður í innanbæjarútköllum. mbl.is skoðaði bílinn sem er hlaðinn aukabúnaði.

Bíllinn sem hann tekur við af er orðinn tíu ára gamall og Móses Helgi Halldórsson sviðsstjóri tækjasviðs segir hann hafa verið orðinn viðhaldsfrekann. Bíllinn er af tegundinni Mercedes Benz Vito og Bílaumboðið Askja, RadíóRaf, Samskip og Daimler í Þýskalandi hafa verið öflugir samstarfsaðilar björgunarsveitarinnar og gefið eftir mikinn kostnað til að létta undir með sveitinni.

Engu að síður eru þetta dýr tæki og bíllinn kostar um 7 milljónir króna þrátt fyrir að mikill kostnaður hafi verið felldur niður. Tækjakaupin eru fjármögnuð með sölu á flugeldum og neyðarkallinum sem Móses segir skipi nú stóran þátt í fjáröflun sveitanna. „Við erum mjög þakklát stuðningi almennings og nú sér almenningur í hvað peningurinn fer,“ segir Móses.

Síðar á árinu verður tekinn í gagnið Mercedes Benz Atego sem verður með 20 manna farþegahúsi og þegar mbl.is skoðaði bílinn í RadíóRaf var þar staddur nýr og glæsilegur bíll sem Björgunarsveitin Súlur á Akureyri er að taka í notkun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert