Tóku sextíu ketti af heimili

Smám saman hafa sjálfboðaliðar Villikatta fjarlægt sextíu ketti af heimilinu. …
Smám saman hafa sjálfboðaliðar Villikatta fjarlægt sextíu ketti af heimilinu. Þeim verða svo fundin góð heimili. Skjáskot/Af Facebook-síðu Villikatta

Dýraverndunarfélagið Villikettir hefur unnið að því í um tvo mánuði að fjarlægja sextíu ketti af einu heimili. Bæjaryfirvöld og eigandi kattanna höfðu samband við félagið og báðu um aðstoð.

Villikettir eru sjálfboðaliðasamtök og hafa aðstöðu til að hýsa nokkra ketti áður er þeim er svo komið fyrir á heimilum. Í þessu tiltekna máli voru kettirnir það margir að félagið fékk húsnæði lánað hjá bæjarfélaginu þangað sem kettirnir voru smám saman fluttir. Til viðbótar fékk það svo lánað annað húsnæði hjá kattavini sem bauð fram aðstoð sína eftir að hafa lesið um málið á Facebook-síðu félagsins.

„Bæjarfélagið sem um ræðir gerði þetta hárrétt, það óskaði eftir okkar aðstoð og hugsunin var sú að koma köttunum fyrir á góðum heimilum og bjarga þeim frá aflífun,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, talskona Villikatta.

Alvarleg veikindi komu upp

Ástæðan fyrir því að Villikettir voru kallaðir til var sú að alvarleg veikindi komu upp á heimilinu. Eigandi þeirra hafði tekið að sér ketti sem voru í þörf á húsnæði en eftir að veikjast gat hann ekki lengur hugsað um dýrin. „Þetta var fólk sem hafði bjargað köttum og hugsað vel um þá en svo gerðist það í fyrra að þessi alverlegu veikindi komu upp og smám saman fór þetta því miður úr böndunum, þó að ásetningurinn hafi verið mjög góður í upphafi. Við vorum svo kölluð til fyrir um tveimur mánuðum,“ segir Arndís.

Kettirnir eru á öllum aldri, allt frá nýfæddum kettlingum upp í fullorðnar kisur af báðum kynjum. Flestar kisurnar voru geldar en í hópnum voru þó einnig kettlingafullar læður.

Að sögn Arndísar voru kettirnir vel haldnir. Þeir gátu farið út og fengu nóg að éta. Þeir höfðu þó ekki verið í miklum samskiptum við fólk um tíma og sumir þeirra voru því hræddir og óöruggir er sjálfboðaliðar Villikatta komu til að sækja þá. „Þeir eru flestir við mjög góða heilsu,“ segir Arndís. „Sumir eru ansi feimnir og hvekktir en eftir smá tíma, með því að sinna þeim, halda á þeim og knúsa, þá verða þeir bara lítil kúrudýr.“

Greinin heldur áfram fyrir neðan Facebook-færsluna.

Reyndust vera um sextíu

Í fyrstu taldi bæjarfélagið að kettirnir væru um þrjátíu talsins. Í ljós kom að þeir voru rúmlega helmingi fleiri. Um helgina var búið að koma sextíu köttum til bjargar en 5-10 eru mögulega enn eftir í húsinu.

Þegar hafa hátt í þrjátíu kettir úr hópnum fengið ný heimili. Aðrir þurfa aðeins lengri tíma til að aðlagast en Villikettir eiga ekki von á öðru en að öllum köttunum verði fundin góð heimili. „Lengi hefur það verið þannig að fólk vildi aðallega taka að sér litla kettlinga. En það hefur orðið breyting þar á. Nú virðist fólk meira hugsa um karakter kattanna og að bjarga kisum og hjálpa til.“

Arndís segir þetta ánægjulega þróun. „Kettirnir þurfa bara hlýju og þolinmæði.“

Töluverður kostnaður fylgir því að taka svona stór verkefni. Villikettir koma köttum sem á því þurfa að halda til dýralæknis og gefa þeim öllum ormalyf. Ormalyf fyrir tólf ketti kosta um 20 þúsund krónur. Villikettir njóta orðið mikillar velvildar bæði einstaklinga og fyrirtækja en hægt er að styrka samtökin hér.

Læðan Pollyanna var meðal kattanna í húsinu. Hún hefur þegar …
Læðan Pollyanna var meðal kattanna í húsinu. Hún hefur þegar fengið nýtt heimili. Af Facebook-síðu Villikatta

Fyrst tortryggni en nú skilningur

Þegar Villikettir voru stofnaðir fyrir tæpum fjórum árum mætti félagið töluverðri tortryggni. Mörgum fannst að ekki ætti að sinna útgangsköttum og villiköttum, þeir væru meindýr sem átti að drepa. Villikettir vildu fara aðra leið, fanga þá, merkja og gelda til að draga úr fjölgun þeirra. Hundruð katta hafa fengið þessa meðferð. „Í fyrstu mættum við skilningsleysi frá mörgum, meðal annars bæjarfélögum. En það hefur breyst hratt og nú sýna flestir okkur mikinn skilning og leita til okkar eins og átti sér stað í þessu tiltekna máli.“

Um fimmtíu öflugir sjálfboðaliðar taka virkan þátt í starfi Villikatta. „En þetta er mikil vinna og oft kostnaðarsöm. En hún skilar árangri,“ segir Arndís. „Annars var félagið stofnað til að sinna eingöngu villi- og vergangskisum, en svo geta komið upp svona mál og erfitt að neita þegar allar hendur leggjast á eitt að hjálpa þessum kisum.“

Sjálfboðaliðar Villikatta eru duglegir að mynda starfið og sýna á Snapchat: Villikettir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert