Niðurgreiðslur aukast um 1,5 milljarð

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Niðurgreiðslur hins opinbera vegna nýs greiðsluþátttökukerfis í heilbrigðisþjónustu aukast um 1,5 milljarð króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Mbl.is greindi í gær frá því sem felst í hinu nýja kerfi.

Í tilkynningu velferðarráðuneytisins kemur fram að Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hafi undirritað reglugerð vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins.

„Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum um sjúkratryggingar í samræmi við breytingar sem á þeim voru gerðar með lögum frá Alþingi 2. júní 2016. Með lagabreytingunni var kveðið á um innleiðingu á nýju og gjörbreyttu greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu hér á landi og munu landsmenn greiða samkvæmt nýju kerfi frá 1. maí næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Nýja greiðsluþátttökukerfið er jöfnunarkerfi sem hefur það meginmarkmið að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum, draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu. Jöfnunin felur í sér að þeir sem mikið þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og hafa greitt umtalsverðan kostnað í núverandi kerfi munu greiða minna en áður,“ kemur einnig fram í tilkynningunni.

„Hinir, sem lítið þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, munu hins vegar greiða meira en áður. Á heildina litið lækkar hlutdeild sjúkratryggðra í heilbrigðiskostnaði í nýju kerfi, þar sem ríkið leggur fram aukna fjármuni til greiðsluþátttöku hins opinbera sem nemur 1,5 milljarði króna á ársgrundvelli."

Nýja kerfið á að verja þá sem mest þurfa á …
Nýja kerfið á að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum. mbl.is/Golli

Greint er frá því að börn yngri en 18 ára greiða ekki komugjöld á heilsugæslu í nýja kerfinu frekar en verið hefur. Komugjöld fólks á aldrinum 67 til 69 ára verða lækkuð úr 960 krónur í 600 krónur líkt og fyrir þá sem eru 70 ára og eldri. Almenn komugjöld verða óbreytt, 1200 krónur. 

„Börn með sama fjölskyldunúmer reiknast sem eitt barn í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Það gildir því einu hvort börn í sömu fjölskyldu eru eitt, tvö eða fleiri að hámarkskostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fyrir þau verður aldrei meiri en 46.467 á 12 mánaða tímabili. Öll heilbrigðisþjónusta fyrir börn sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið er endurgjaldslaus ef hún er veitt á grundvelli tilvísunar frá heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi heimilislækni sem starfar samkvæmt samningi við SÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert