Tæplega helmingur ánægður með fjölgun ferðamanna

Ánægja með fjölgun ferðamanna er meiri meðal eldra fólks.
Ánægja með fjölgun ferðamanna er meiri meðal eldra fólks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 45% Íslendinga eru ánægðir með fjölgun ferðamanna á landinu samkvæmt könnun Maskínu. 16% segjast hins vegar óánægð með fjölgunina og um 40% eru í meðallagi ánægðir.

Samkvæmt könnuninni er ánægja með fjölgun ferðamanna meiri meðal eldra fólks en yngra auk þess sem að ánægjan eykst með lengri skólagöngu og hærri tekjum. Þá var marktækur munur á ánægju milli kjósenda stjórnmálaflokka. Þannig eru kjósendur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar mun ánægðari með fjölgunina en kjósendur annarra flokka, en kjósendur Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs síst ánægðir.

Konur eru hlynntari aðgangsstýringu

Í könnuninni var einnig spurt hvort svarendur væru hlynntir eða andvígir því að komið verði á aðgangsstýringu þannig að ákveðinn fjöldi ferðamanna fái að koma til landsins á hverju ári. Um 47% svarenda segjast vera hlynnt því á meðan á billinu 29-30% segjast vera því andvíg. Konur eru hlynntari takmörkun en karlar og munur sást á milli kjósenda flokkanna þar sem kjósendur Framsóknarflokksins eru til dæmis hlynntastir aðgangsstýringu.

Þá var athugað hversu miklar eða litlar áhyggjur svarendur hefðu af ákveðnum málum með tilliti til aukins fjölda ferðamanna, en spurt var um vegakerfi landsins, náttúru, skorti á leiguhúsnæði, stærð flugvallarins og fjölgun láglaunastarfa. Helstu niðurstöður eru þær að töluverður meirihluti svarenda hefur áhyggjur af vegakerfi landsins, náttúru og skorti á leiguhúsnæði eða á bilinu 81% til 87% en aðeins rúmlega helmingur af fjölgun láglaunastarfa eða 51%-52% en fæstir hafa áhyggjur af stærð flugvallarins, eða aðeins rúmlega 30%.

Helmingur hlynntur komugjaldi

Einnig var spurt um afstöðu til komugjalds til landsins. Spurt var hvort svarendur væru hlynntir eða andvígir 1.000 kr. komugjaldi í hvert sinn sem þeir ferðast um Keflavíkurflugvöll til að byggja upp innviði í ferðaþjónustu. Hátt í 50% segjast vera hlynnt komugjaldi á meðan um 35% segjast andvíg því. Því hærri aldur, lengri skólaganga og meiri tekjur þeim mun hlynntari verða menn slíku komugjaldi.

Svarendur þessarar könnunar, 847 manns, eru úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá.

Könnunin fór fram dagana 27. mars til 3. apríl 2017.

Skýrslan í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert