Uppsafnaður mismunur er 4.600 íbúðir

Lítið sem ekkert íbúðarhúsnæði reis á árunum eftir hrun bankanna.
Lítið sem ekkert íbúðarhúsnæði reis á árunum eftir hrun bankanna. mbl.is/Eggert

Uppsafnaður mismunur á framboði og eftirspurn íbúðarhúsnæðis er um 4.600 íbúðir. Þetta er niðurstaða greiningar Íbúðalánasjóðs, sem sjóðurinn hefur unnið að beiðni Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu er tekið fram að í þessum tölum sé miðað við að um 1.600 íbúðir séu á hverjum tíma í skammtímaleigu til ferðamanna.

Heildarþörf á uppbyggingu á íbúðahúsnæði á næstu þremur árum er sögð vera 9.000 íbúðir. Fjölgun eigna hafi þá ekki haldist í hendur við mannfjöldaþróun á landinu undanfarin ár.

„Greining sjóðsins er hluti af ítarlegri greiningu á stöðu húsnæðismála á landinu sem Íbúðalánasjóður annst fyrir aðgerðahóp um húsnæðisvandann sem fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitja í,“ segir í tilkynningunni.

Hópurinn muni þá skila tillögum um úrbætur í húsnæðismálum í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert