Allir fylgdust með og vildu hjálpa

Grímur Grímsson.
Grímur Grímsson. mbl.is/Árni Sæberg

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn telur að rannsókn lögreglu á máli Birnu Brjánsdóttur hafi tekist vel. Hann er ánægður með hvernig til tókst við rannsókn þessa dapurlega máls en Grímur var viðmælandi í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Málið heltók þjóðina og það voru allir að fylgjast með og allir vildu hjálpa,“ sagði Grímur. Thom­as Møller Ol­sen hefur verið ákærður fyrir að að bana Birnu en hann er sakaður um að hafa beitt hana of­beldi og að hafa kastað henni í sjó eða vatn, þar sem hún drukknaði. 

Hinn skipverjinn sem var handtekinn er laus allra mála.

Grímur kvaðst ekki vilja fara út í það sem kom fram í yfirheyrslum yfir Olsen, en játning liggur ekki fyrir. 

Hann sagði að hluti af rannsókninni hefði verið að leiða fram ásetning hjá hinum grunaða. 

„Afstaða hans liggur ekki fyrir þar sem það kom engin játning. Við teljum okkur hafa leitt í ljós í aðalatriðum hvernig þetta var,“ sagði Grímur.

Spurður um kvöldið þegar Birna hvarf, aðfaranótt 14. janúar, sagði Grímur að lögreglan vissi ekki á hvaða leið hún hefði verið. „Nei. það var ekkert í gegnum símann sem leiddi í ljós á hvaða leið hún var. Ekkert sem benti til að hún væri að hitta einhvern,“ sagði Grímur og bætti við að ekkert hefði bent til þess að Birna hefði verið þvinguð upp í rauðu Kia Rio-bif­reiðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert