„Ómöguleg staða“ hjá embættunum

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þótt sú skýring sé þreytt þá er skýringin á þessum drætti skortur á mannafla og fjöldi verkefna.“ Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson um þá niðurstöðu héraðsdóms að skilorðsbinda stóran hluta dóma í stóra skattsvikamálinu svokallaða. Dæmt var í málinu í gær og hlaut Halldór Jörgen Gunnarsson, fyrrverandi starfsmaður Ríkisskattstjóra, þyngsta dóminn, eða fjögurra ára fangelsi vegna aðildar sinnar að málinu.

Málið tók alls sjö ár 

Dóm­ur­inn er skil­orðsbund­inn til þriggja ára frá upp­kvaðningu og fell­ur niður haldi hann al­mennt skil­orð. Komi til fulln­ustu dóms­ins kem­ur gæslu­v­arðhald sem hann sætti til frá­drátt­ar. Tók málið alls sjö ár frá því að það kom upp og þangað til dómur féll í gær og var þessi langi tími meðal ástæðna fyrir skilorðsbindingu dómsins. Hall­dór var ann­ar af tveim­ur sak­born­ing­um sem voru viðstadd­ir dóms­upp­kvaðning­una.

Stein­grím­ur Þór Ólafs­son var dæmd­ur í tveggja ára og sex mánaða fang­elsi en dóm­ur­inn fell­ur niður haldi hann al­mennt skil­orð í þrjú ár. Guðrún Halla Sig­urðardótt­ir var dæmd í 18 mánaða fang­elsi en dóm­ur­inn fell­ur að sama skapi niður haldi hún skil­orð í þrjú ár. Thom­as Za­hniser var dæmd­ur í tólf mánaða fang­elsi sem einnig fell­ur niður haldi hann skil­orð í þrjú ár. Aðrir fengu fang­els­is­dóma 3-6 mánaða dóma sem einnig falla niður verði skil­orð haldið.

Helgi Magnús segist ekki ætla að mæla þessari löngu málsmeðferð við rannsókn og hjá saksóknara bót, enda sé þetta „ómöguleg staða.“ Skortur á mannafla og fjöldi verkefna undanfarin ár samhliða niðurskurði skýri þetta að stórum hluta.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær átta manns í fangelsi í …
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær átta manns í fangelsi í stóra skattsvikamálinu svonefndu. Halldór Jörgen Gunnarsson, fyrrverandi starfsmaður Ríkisskattstjóra, hlaut þyngsta dóminn og var dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára frá uppkvaðningu og fellur niður haldi hann almennt skilorð. Kristinn Magnússon

Staðan betri í dag

Sem betur fer segir Helgi Magnús að mörg stór mál séu nú í fortíðinni og það líti út fyrir að álagið sé aðeins að minnka. Þá hafi staðan hjá saksóknara batnað eftir að embætti héraðssaksóknara var hleypt af stokkunum samhliða fækkun svokallaðra hrunmála.

Í síðustu viku var Gunn­ar Jak­obs­son dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna vörslu á um 50.000 barnaníðsmyndum. Kom þá einnig fram í dóminum vegna verulegs dráttar á rannsókn málsins þyki rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og þar með skilorðsbinda dóminn.

Ekki hægt að útiloka áhrifin í fleiri dómum

Aðspurður hvort búast megi við fleiri málum á næstunni þar sem löng málsmeðferð valdi því að dómar séu skilorðsbundnir meðal annars vegna skorts á fjármagni hjá lögreglu og saksóknaraembættum segist Helgi Magnús ekki treysta sér til að svara því. „Við getum þó ekkert útilokað í því.“ Hann tekur þó fram að hann telji þessi tvö mál frekar vera undantekningu en reglu.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort skattsvikamálinu verði áfrýjað og segir Helgi Magnús að sakfellt hafi verið að öllu leyti samkvæmt ákæru. „Málatilbúnaður ákæruvaldsins fékk hljómgrunn hjá héraðsdómi,“ segir hann. Það sé aftur á móti spurning með tafirnar og áhrifin á skilorðsbindinguna. Segir Helgi Magnús að almennt leiði tafir til skilorðsbindingar og því eigi hann ekki endilega von á því fyrirfram að saksóknaraembættið muni reyna að fá dóminum breytt fyrir Hæstarétti með áfrýjun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert