Sinubruni í kringum sumarbústað

Slökkviliðið var kallað á vettvang um hálftvöleytið.
Slökkviliðið var kallað á vettvang um hálftvöleytið. mbl.is/Árni Sæberg

Sinubruni varð á stóru svæði hjá Ketilsstöðum á Fellsströnd í dag. Slökkvilið Dalabyggðar var kallað á staðinn um klukkan hálftvö en búið er að slökkva eldinn.

Að sögn Jóhannesar Hauks Haukssonar slökkviliðsstjóra tók töluverðan tíma fyrir slökkviliðið að komast á staðinn.

Sina hafði meðal annars brunnið í kringum einn sumarbústað en heimafólk var búið að slökkva eldinn þar í kring þegar slökkviliðið kom á vettvang.

Eldra íbúðarhús og annar sumarbústaður eru einnig á svæðinu.

Alls voru tólf til fjórtán slökkviliðsmenn á staðnum við að slökkva í sinunni. Björgunarsveitin mætti einnig á vettvang með einn bíl ef það þyrfti að koma tækjum á erfiða staði en ekki reyndist þörf fyrir þann bíl.

Að sögn Jóhannesar Hauks hefði getað farið mun verr en vegna þess að sinan kviknaði skammt frá fjörunni reyndist auðveldara að eiga við eldinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert