Unnið gegn einhæfu kynjahlutfalli

Kynjaskiptingin hjá tölvuleikjaframleiðendunum í Solid Clouds er frekar einhæf. Starfsmennirnir eru ellefu og allir eru þeir karlkyns, þeir buðu því hinni fimmtán ára gömlu Evu Dögg Halldórsdóttur í starfsnám. „Okkur virkilega langar að fá stelpu eða stelpur með okkur,“ segir framkvæmdastjórinn Stefán Gunnarsson.

Hann segir að einhverra hluta vegna hafi hlutirnir æxlast svona og tekur fram að margar mjög hæfar íslenskar konur starfi í tölvuleikjageiranum en þær mættu þó gjarnan vera fleiri. Stefán bendir á að mögulega verði það raunin því gjarnan séu það stelpur sem komi í starfsnám hjá fyrirtækinu. 

Fyrirtækið vinnur að þróun á tölvuleiknum Starborne og Eva Dögg hefur mikinn áhuga á því að starfa í tölvuleikjageiranum við hönnun á útliti. Hún stefnir því á nám við myndlistarbraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti. 

mbl.is kom við hjá Solid Clouds á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert